Körfuboltakona og verðandi doktor á leið í Harvard

Sóllilja fékk Fulbright styrk.
Sóllilja fékk Fulbright styrk. Ljósmynd/ Sóllilja Bjarnadóttir

Sóllilja Bjarnadóttir, Fulbright styrkhafi og doktorsnemi í umhverfisfélagsfræði, hló framan í leiðbeinanda sinn, Sigrúnu Ólafsdóttur, prófessor við félagsfræðideild Háskóla Íslands, þegar Sigrún hvatti hana  til þess að stefna hærra og reyna að komast inn í Harvard.

Þrátt fyrir það á Sóllilja bókað flug til Boston þann 26. ágúst, þar sem hún mun dvelja næsta árið og ljúka við hluta af doktorsverkefninu sínu í samvinnu við Jason Beckfield, prófessor við Harvard háskóla, sem er einnig í doktorsnefndinni hennar.

„Ég hélt hún væri að grínast, en svo fór ég að hugsa um þetta. Ef ég ætla að leggja umhverfisfélagsfræði fyrir mig get ég ekki bara setið á Íslandi að lesa fræðigreinar um það, ég verð að fara út og koma með þessa þekkingu heim. Ég fór  aftur til Sigrúnar og sagði henni að mér þætti  þetta bara nokkuð góð hugmynd. Þá segir hún mér frá þessum Fulbright styrk og ég fór bara að vinna að því að sækja um hann.“

En Fulbright býður upp á styrki til íslenskra náms- og fræðimanna til að fara til Bandaríkjanna.

Sóllilja mun dvelja í Boston næsta árið og sitja námskeið …
Sóllilja mun dvelja í Boston næsta árið og sitja námskeið við Harvard háskóla. AFP

Var í sóttkví þegar hún fékk styrkinn

Sóllilja man eftir því þegar hún fékk tölvupóst um að hún hefði fengið styrkinn. „Ég var í sóttkví inn í herbergi og ég hljóp fram til mömmu og pabba,  því ég réð ekki við mig en svo mátti ég ekki knúsa neinn. Ég var yfir mig ánægð með þetta og er enn svo þakklát að hafa fengið þennan styrk.“

Þegar Sóllilja lýkur við gráðuna verður hún orðin fyrsti Íslendingurinn með doktorsgráðu með áherslu á umhverfisfélagsfræði. Hún segir fræðigreinina þó útbreiddari í öðrum löndum, einkum í Bandaríkjunum.

Erfitt að fá engin laun eftir meistaragráðu

Sóllilja skilaði meistararitgerðinni fyrir tveimur árum og fór strax að huga að doktorsnáminu.

„Það er svolítið erfitt að fá engin laun beint eftir meistaragráðuna þegar ég fór í ferlið að sækja um doktorsstyrk, þannig að ég einbeitti mér mikið að kennslu og sinnti náminu minna á meðan ég var ekki komin með styrk.“

Svíþjóð góður stökkpallur

Síðasta árið dvaldi Sóllilja í Svíþjóð.
Síðasta árið dvaldi Sóllilja í Svíþjóð. Ljósmynd/ Sóllilja Bjarnadóttir

Síðasta sumar fékk Sóllilja svo þriggja ára styrk frá Háskóla Íslands, sem gerði henni kleift að beina öllum kröftum sínum að doktorsverkefninu.

Hún byrjaði á því að fara til Svíþjóðar í einskonar starfsnám þar sem hún sat námskeið í umhverfisfélagsfræði sem og námskeið í félagsfræði með áherslu á viðhorf til stjórnmála.

Sóllilja er heimakær og þótti því góður stökkpallur að búa í Svíþjóð áður en förinni yrði heitið til Bandaríkjanna, þá fannst henni einnig gott að sjá hvernig umhverfisfélagsfræðinálgunin væri á Norðurlöndunum.

Slysaðist í atvinnumennsku

Sóllilja er körfuboltakona sem spilaði lengst af fyrir Breiðablik, um hríð í KR og Val og svo hefur hún einnig spilað fyrir íslenska kvennalandsliðið.

Þegar hún kom til Svíþjóðar hafði hún ætlað sér að taka pásu frá körfuboltanum, en endaði á því að spila með körfuboltaliðinu A3 Basket Umeå.

„Þetta gerðist eiginlega óvart, ég var í svo miklum vandræðum með íbúð að ég ákvað bara að spila og fá íbúð þannig.“

Sóllilja Bjarnadóttir í leik með Breiðabliki.
Sóllilja Bjarnadóttir í leik með Breiðabliki. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þrátt fyrir að það hafi verið frábær leið til þess að útvega sér íbúð, eignast vini og aðlagast samfélaginu, viðurkennir Sóllilja að það hafi verið ívið of mikið álag að spila körfubolta með atvinnumannaliði samhliða doktorsnáminu.

Því hefur hún ákveðið að leggja skóna á hilluna rétt á meðan hún er í Harvard og njóta þess tækifæris til hins ýtrasta. Þar mun hún sitja námskeið í umhverfisfélagsfræði og halda áfram fræðigreinaskrifum með Beckfield prófessor við Harvard.

Hvað er fólk tilbúið að gera?

Umhverfisfélagsfræði er víðfeðmt fræðisvið. Í doktorsverkefni Sóllilju skoðar hún sérstaklega hvernig félagslegir þættir hafa áhrif á hvort einstaklingar styðji mismunandi aðgerðir í loftslagsmálum. „Hvað það er í umhverfi okkar sem hefur áhrif á það hvaða stefnur við veljum umfram aðrar.“

Á Íslandi áttar fólk sig á því að loftslagsbreytingar séu vandi, en það sem Sóllilja vill kanna er hvað fólk sé tilbúið að gera í þeim vanda. „Við þurfum að skapa sátt meðal almennings, sama hvaða aðgerðir við ráðumst í.“

Réttlát umskipti

Einn vinkillinn af því eru réttlát umskipti. „Skrefin þurfa að byggja á réttlæti, allar aðgerðir sem stjórnvöld ákveða að ráðast í þurfa að byggja á réttlæti.“

Sem dæmi um þetta nefnir hún rafbílavæðingu á Íslandi. Ef lausn stjórnvalda verður að rafbílavæða Ísland og leggja hærri skatta á olíu, komi það helst niður á þeim sem minnst eiga í samfélaginu á meðan rafbílar eru dýrir og olíuverð hækka ört.

„Loftslagsbreytingarnar koma mis illa niður á fólki bæði innan samfélaga og milli samfélaga. Ef eina lausnin er að hækka skatta og rafbílavæða, með þessi verð, eru okkar viðbrögð til þess fallin að breikka bilið.“

Líkt og um andhverfa póla sé að ræða

Annað sem vekur athygli Sóllilju er tilhneigingin hér á landi að stilla virkjunum, stóriðju og efnahag upp á móti náttúrunni, líkt og um tvo andhverfa póla sé að ræða. Hún fjallaði um málið í ritrýndri grein sem birtist í Stjórnmál og stjórnsýsla ásamt Sigrúnu leiðbeinanda sínum, Ingu Rún Sæmundsdóttur, Guðbjörg Andreu Jónsdóttur og Þorvarði Árnasyni

„Ég er að skoða núna meðal annars hvaða aðgerðir einstaklingar styðja, en þar er ég að sjá hvað félagfræðilega samhengið skiptir miklu máli, til dæmis hlutverk trausts á hvort einstaklingar styðji aðgerðir í loftslagsmálum og hvernig allt í kringum okkur hefur áhrif á það hvernig viðhorf við höfum eða hvernig við högum okkur.“

Sóllilja hefur verið að kenna við félagsfræðideildina í HÍ í nokkur ár núna en draumur hennar er að komast á endanum í fasta stöðu og svo loks í prófessorstöðu við HÍ og koma á fót sérstöku námskeiði í umhverfisfélagsfræði.

„Það er klárlega markmiðið að fá að kenna í Háskólanum.“

Sóllilja ætlar að vera dugleg að deila dvölinni í Boston með fylgjendum sínum á instagram.

Draumurinn er að kenna í Háskóla Íslands.
Draumurinn er að kenna í Háskóla Íslands. Morgunblaðið/Sigurður Bogi
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert