Tvísýnt hvort Bárurnar komist alla leið

Bárurnar eru mættar til Dover og tilbúnar í boðsundið.
Bárurnar eru mættar til Dover og tilbúnar í boðsundið. Ljósmynd/Elsa Valsdóttir

Tvísýnt er hvort sjósundshópurinn Bárurnar komist alla leið yfir Ermarsundið í dag þrátt fyrir að vel hafi gengið að synda í morgun og hópurinn sé á betri tíma en búist var við. Sundkonurnar hafa samtals synt um 17 kílómetra en þær hafa verið í sjónum frá því klukkan 02:40 í nótt á íslenskum tíma, sem gera um sex klukkutíma.

Guðmunda Elíasdóttir, ein af sundkonunum sem þreytir boðsundið, segir hópinn nú í kappi við tímann þar sem leiðinda veðri sé spáð Frakklandsmegin.

Stysta mögulega leið frá Englandi til Frakklands yfir Ermarsundið eru 34 kílómetrar í beinni línu en ferð sjósundshópsins verður þó nokkuð lengri þar sem að synda þarf með straumnum. Erfitt sé því að segja til um hversu löng leið sé framundan.

Hægt er að fylgjast með ferðinni hér.

Reyna að halda á sér hita

Ekki var ljóst í morgun hvort hópurinn myndi leggja af stað þar sem ekki var spáð of góðu veðri. Þetta var þó eini dagurinn sem reyndist mögulegur í þeim sjö daga glugga sem Bárurnar gáfu sér, því var ákveðið að fara.

„Það er spáð leiðindum þannig við erum að reyna að drífa okkur, þetta er eiginlega pínu tvísýnt hvort við náum yfir,“ segir Guðmunda í samtali við mbl.is.

Þegar blaðamaður náði tali af Guðmundu var sjötta sundkonan í hópnum komin út í sjóinn, Elsa Valsdóttir, en þær skiptast á að synda og er hver og ein um klukkutíma í senn. Á meðan sitja hinar fimm um borð í bát sem siglir með og reyna að halda á sér hita. Gerir hópurinn ráð fyrir að allar muni synda að minnsta kosti þrisvar.

„Við erum bara að hafa gaman. Hlýja okkur. Það er pínu kuldi í okkur þegar við komum upp úr. Sjórinn er þrettán og hálf gráða og það vantar sólina. Við erum að keppast við að hressa hvora aðra við. Þetta er samt ótrúlega skemmtilegt. Við erum að fara í gegnum skipaumferð núna. Ég sé allavega fjögur í kringum mig núna.“

Hún segir skipin þó ekki trufla boðsundið, heldur sé aðallega um félagsskap að ræða.

Hafa æft síðastliðin tvö ár

Bárurnar hafa æft ferðina yfir Ermarsundið síðastliðin tvö ár. Hefur undirbúningurinn meðal annars falið í sér sund í Urriðavatninu, Sæunnarsundi og sund út í Viðey. 

Hópurinn ákvað að styðja við Stóm­a­sam­tök Íslands með þrekraun sinni en ein Báranna er stómaþegi, þ.e. Sig­ríður Lár­us­dótt­ir, og því standa mál­efni samtakanna Bár­un­um sér­stak­lega nærri.

Ásamt Guðmundu sam­an­stend­ur sjó­sund­hóp­ur­inn Bár­urn­ar af eft­ir­far­andi: Elsu Valsdóttur, Sig­ríði Lár­us­dótt­ur, Hörpu Leifs­dótt­ur, Jór­unni Atla­dótt­ur og Bjarnþóru Eg­ils­dótt­ur.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert