Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, fyrrverandi bæjarstjóri í Grundarfirði og sveitarstjóri á Hellu, lést á Landspítalanum 4. júní, 71 árs að aldri. Hann fæddist 14. september 1951 í Reykjavík og var sonur þeirra Elínar Bjarnveigar Ólafsdóttur þjóns og Gunnlaugs Birgis Daníelssonar sölumanns. Þau skildu.
Guðmundur fór tveggja mánaða gamall til fósturforeldra sinna í Hveragerði, þeirra Ingibjargar Jónsdóttur húsmóður og Guðmundar Ólafssonar, ökukennara og bifreiðarstjóra. Hann fór í landspróf í Hveragerði en lauk því frá Vesturbæjarskóla í Reykjavík. Eftir það var hann um tíma við nám í MR og MH. Guðmundur tók síðar meirapróf og lauk námi sem leiðsögumaður frá Ferðamálaskóla Íslands.
Guðmundur rak Fossnesti á Selfossi frá 1981 til 1986, en það var mjög vinsæll viðkomustaður þar í bæ. Skemmtistaðurinn Inghóll var byggður ofan á Fossnesti og rak hann þann stað einnig. Guðmundur var svo hótelstjóri á Hótel Örk í Hveragerði í nokkra mánuði 1986. Eftir það starfaði Guðmundur hjá Sambandi íslenskra samvinnufélaga í fjögur ár þar til hann sneri sér að sveitarstjórnarmálum.
Hann var virkur í starfi Sjálfstæðisflokksins og var sveitarstjóri á Hellu frá 1990 til 2006. Þá var Guðmundur ráðinn bæjarstjóri í Grundarfirði og gegndi því embætti í fjögur ár. Hann tók þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Rangárþingi ytra 2010, lenti í fyrsta sæti og var oddviti sjálfstæðismanna í sveitarstjórn 2010-2014.
Guðmundur gegndi ýmsum fleiri trúnaðarstörfum og var virkur í þjóðmálaumræðunni. Þá tók hann þátt í Oddfellow til æviloka.
Eftirlifandi eiginkona Guðmundar er María Busk sjúkraliði. Hann lætur eftir sig fimm uppkomin börn, tíu barnabörn og þrjú barnabarnabörn.
Útförin verður gerð frá Selfosskirkju föstudaginn 10. júní klukkan 14.