Sveinn Ágúst Björnsson, fv. sendiherra, lést á Landspítalanum í Fossvogi 29. maí síðastliðinn, á 80. aldursári.
Sveinn fæddist í Reykjavík 18. ágúst 1942, sonur Björns Halldórssonar verkstjóra og Nönnu Sveinsdóttur, húsfreyju, bókara og gjaldkera.
Eftirlifandi eiginkona Sveins er Magnea Sigríður Sigurðardóttir sérkennari, f. 1939. Þau giftu sig árið 1990 í Dómkirkjunni í Reykjavík. Dóttir Magneu er Rakel Rós Ólafsdóttir ferðamálafræðingur, f. 1976. Hún á fjögur börn með Maurizio Tani listfræðingi, f. 1973.
Sveinn bjó lengst af í Vesturbænum, á Víðimel og Hringbraut. Hann byggði ásamt foreldrum sínum húsið við Granaskjól 8, þar sem þau mæðgin bjuggu í um þrjátíu ár eftir sviplegt andlát föður Sveins. Sveinn stundaði golfíþróttina af kappi og laxveiði, ásamt því að vera daglegur gestur í Vesturbæjarlauginni. Síðustu árin bjuggu Sveinn og Magnea í Grafarholti.
Sveinn varð stúdent frá Verzlunarskóla Íslands árið 1963. Þar kynntist hann nokkrum af sínum bestu vinum. Hann nam spænsku, spænska sögu og bókmenntir við Háskólann í Barcelona árið 1964 og lauk viðskiptafræði frá Háskóla Íslands árið 1970.
Sveinn starfaði hjá Efnahagsstofnuninni 1966-1970, þegar hann hóf störf í viðskiptaráðuneytinu og starfaði þar í 18 ár. Árið 1988 færði hann sig yfir til utanríkisráðuneytisins, þar sem hann starfaði allt til ársins 2006 þegar hann lét af störfum.
Sveinn starfaði í sendiráðinu í París á árunum 1978-1982 og bjó þar með móður sinni. Til Íslands kom hann aftur á árunum 1982-1992 þegar hann sneri á ný til starfa til Parísar, nú með eiginkonu sinni og dóttur hennar. Þau bjuggu í París til 1995 þegar þau fluttust til Strassborgar árið 1997 og árið 1998 til Washington DC þar til árið 2001 þegar þau fluttust aftur til Íslands.
Sveinn var ötull í ýmiss konar félags- og trúnaðarstörfum, meðal annars með Lionshreyfingunni í nokkurn tíma.
Útför Sveins fer fram frá Lágafellskirkju í Mosfellsbæ á morgun, fimmtudag, kl. 13.