Fjarskiptafyrirtækin eru smátt og smátt að taka út koparlínur fyrir heimasíma landsmanna og færa þá yfir á netið, gegnum svonefnd Voice over IP-kerfi, VoIP. Samskiptastjóri Símans, Guðmundur Jóhannsson, segir að þessari vinnu eigi að vera að fullu lokið fyrir árslok 2023.
Áform voru uppi um að taka kerfið út fyrr og að einhverju leyti má rekja það til veirufaraldursins, að sögn Guðmundar.
„Við byrjuðum á þeim símstöðvum þar sem fæstir notendur eru og smám saman höfum við verið að fara á stærri stöðvar og þá tekur þetta lengri tíma,“ segir hann og bætir við að auk þess þurfi að upplýsa alla notendur um fyrirhugaðar framkvæmdir. Þá komi upp „jaðartilvik“ sem þurfi að leysa sérstaklega.
Að sögn Guðmundar þurfa símnotendur ekki að aðhafast mikið til að færa sig á milli kerfa og geti notað sömu símtæki áfram.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.