Geti myndað öflugan her í norrænu samstarfi

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra Íslands og Peter Hultqvist varnamálaráðherra …
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra Íslands og Peter Hultqvist varnamálaráðherra Svíþjóðar. mbl.is/Hákon

Peter Hultqvist, varnamálaráðherra Svíþjóðar, segir í samtali við mbl.is að það sé hans mat að Ísland geri nóg hvað varðar öryggismál Evrópu og að það komi honum þannig séð ekki við hvað Ísland geri heldur sé það undir Íslendingum komið.

mbl.is ræddi við Hultqvist um hlutverk Íslands á alþjóðavísu þegar það kemur að öryggismálum á fundi utanríkisráðherra og varnamálaráðherra Norðurhóps Evrópu sem fór fram í dag.

Aðspurður segir Hultqvist helsta hlutverk Íslands innan varnarbandalags Norðurhópsins felast í þeirri hernaðarlega séð mikilvægu staðsetningu Íslands á milli Evrópu og Bandaríkjanna. Segir hann mikilvægt að líta á Ísland frá sjónarhorni hernaðarlegrar staðsetningar. Minnist hann þar að auki á hergögn Bandaríska hersins á Keflavíkurflugvelli sem að hans mati eru mikilvæg fyrir frið í Evrópu. 

Ísland athyglisverð eyja

Spurður hvort að Ísland ætti að gera meira en gert er nú þegar til að stuðla að friði og til að hjálpa Úkraínu við að verjast gegn rússneskum hersveitum segir Hultqvist það ekki þurfa að hans mati. „Ísland mætir á alla fundi og lætur mikið til sín taka í samskiptum við önnur lönd. Það sem Ísland ætti að gera eða ekki að gera er undir Íslandi komið,“ segir Hultqvist

„Í norrænu samstarfi með Finnlandi, Svíþjóð, Noregi og Danmörku sem nær yfir risastórt svæði getum við samræmt okkur og myndað mjög öflugan her,“ segir Hultqvist og tekur fram að hann vonist til þess að Svíþjóð hljóti inngöngu í Atlantshafsbandalagið (NATO). 

Í lokin segist Hutlquist vera mjög hrifin af Íslandi: „Ég hef verið hérna nokkrum sinnum og líkað það nokkuð vel. Þetta er mjög athyglisverð eyja.“ Hultqvist bætir við að hann hlakki til þess að geta heimsótt landið einsamall sem ferðamaður til að geta notið þess sem landið hefur upp á að bjóða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert