Íslenska ríkinu hefur verið gert að greiða karlmanni 1,5 milljónir króna í bætur vegna umfangsmikillar rannsóknar og þvingunar í tengslum við meint brot mannsins. Meint brot tengdust meðal annars vændi.
Dómurinn var kveðinn upp í Héraðsdómi Reykjavíkur í síðustu viku.
Í janúar 2019 féllst Héraðsdómur Reykjaness á að fjarskiptafyrirtækjum yrði skylt að veita Lögreglunni á Suðurnesjum fjarskiptaupplýsingar tengdar símtækjum og númerum mannsins, auk heimildar til eins mánaðar til að hlusta á og hljóðrita símtöl og skilaboð í talhólfi mannsins.
Heimildin var veitt í tengslum við rannsókn á innflutningi á fíkniefnum sem tilkynnt hafði verið um að maðurinn stæði fyrir.
Sama ár var maðurinn handtekinn og úrskurðaður í gæsluvarðhald vegna rannsóknar lögreglu á meintum kynferðis- og ofbeldisbrotum, auk brota tengdum mansali og vændi. Í gæsluvarðhaldsúrskurði kom fram að brotin hafi beinst gegn eiginkonu hans, sem kærði þau.
Maðurinn var meðal annars settur í gæsluvarðhaldseinangrun. Enn fremur var gerð húsleit á heimili foreldra hans og heimili hans og eiginkonunnar. Auk þess var lagt hald á farsíma, tölvur og ýmsan tölvubúnað í eigu mannsins.
Rannsókn málsins var felld niður í júní árið 2020. Gerði maðurinn þá kröfu um greiðslu skaða- og miskabóta. Fór hann fram á alls 15,1 milljón króna í skaða- og miskabætur frá ríkinu.
Maðurinn byggði mál sitt á því að hann hefði þurfti að þola óvenju umfangsmiklar rannsóknaraðgerðir og þvingunarráðstafanir, sem hafi verið umfram tilefni í ljósi þess að hann hefði verið samstarfsfús á meðan rannsókn stóð.
Auk þess hefði lagaskilyrði skort til allra þeirra rannsóknaraðgerða sem honum hafi verið gert að þola og þær verið ólögmætar. Í gögnum málsins væri ekkert að finna sem renndi stoðum undir sakarefni málsins og réttlætti rannsóknaraðgerðirnar sem maðurinn hefði sætt, heldur þvert á móti.
Maðurinn taldi sig hafa orðið fyrir tekjutapi og benti á að honum hefði verið boðið að koma til baka á vinnustað sinn á skertum launum, en síðar verið sagt upp.
Lögmaður íslenska ríkisins sagði að rannsóknin hefði verið umfangsmikil og að maðurinn hefði sjálfur stuðlað að aðgerðunum sem ráðist hefði verið í. Ósannað væri að maðurinn hefði verið rekinn vegna aðgerða lögreglu.
Héraðsdómur féllst á að maðurinn ætti rétt á bótum vegna aðgerða lögreglu. Ekki var talið að manninum hafi tekist að sanna tengsl milli aðgerða lögreglu og fjártjóns vegna atvinnumissis og var skaðabótakröfu því hafnað.
Ríkið var því dæmt til að greiða manninum 1,5 milljónir króna í miskabætur.