Ummerki benda til þess að ökumaður bifreiðar sem var ekið útaf í Skötufirði í janúar á síðasta ári, með þeim afleiðingum að 29 ára kona og eins árs barn létust, hafi verið með skerta athygli vegna ofþreytu eða syfju þegar slysið varð. Er sennilegt að hann hafi sofnað og misst stjórn á bifreiðinni.
Þetta kemur fram í skýrslu Rannsóknarnefndar samgönguslysa sem var birt í dag. Þar eru tildrög banaslyssins og aðstæður á vettvangi gerð skil.
Ökumaður og farþegar voru fjölskylda á leið vestur frá Keflavíkurflugvelli og höfðu lagt af stað beint úr utanlandsflugi. Liðinn var um sólarhringur frá því að ökumaður vaknaði deginum áður.
Bíllinn var á leið í átt að Ísafirði þegar ökumaður missti stjórn á bifreiðinni, hún snerist, rann út af veginum og valt niður í sjó.
Ummerki eftir bifreiðina sýna að ökumaður hafi ekki rétt stýrið af eftir mjúka vinstri beygju rétt utan við eyðibýlið Eyri. Var bifreiðin komin yfir á rangan vegarhelming rúmum 200 metrum áður en hún hafnaði í sjónum.
Snjór og krapi voru á veginum sem var háll og hiti um frostmark.
Ummerki sýna að ökumaður hafi gert tilraun til að beygja aftur inn á veginn en við það hafi hann misst stjórnina og ökutækið fór að skríða til og snúast. Bifreiðin rann síðar aftur á bak og á hlið út af veginum og niður varnargarð.
Að sögn ökumanns ók hann á um 80 km/klst hraða rétt fyrir slysið, sem ber saman við ummerki á vettvangi. Bifreiðin var af gerðinni Hyundai Santa Fe, nýskráð 2004, og var á hálfslitnum negldum vetrardekkjum.
Í skýrslunni segir að rannsóknarniðurstöður og kringumstæður dauðsfallanna bendi til þess að dánarorsakir beggja farþega hafi verið ofkæling en ekki væri hægt að útiloka drukknun.
Til viðbótar hafi konan verið með umtalsverða áverka sem gætu hafa haft áhrif en sennilegt er að hún hafi ekki verið í öryggisbelti. Hún var ásamt barninu í aftursæti bílsins. Barnið var í bílstól.
Slysið átti sér stað á tímum Covid-19 heimsfaraldursins og strangar sóttvarnareglur voru í gildi. Var ferðalöngum þá ráðlagt að aka beint til heimilis síns eða þangað sem fyrirhugað var að dvelja í sóttkví og stoppa ekki á leiðinni.
Fjölskyldan var búsett á Vestfjörðum og var leiðinni heitið þangað. Um sex tíma akstur var frá flugvellinum að heimili þeirra en ferðin tók þó lengri tíma sökum vetrarfærðar.
Fullorðnu einstaklingarnir höfðu skipst á að keyra en ökumaðurinn sem var undir stýri þegar slysið átti sér stað sagðist hafa blundað í flugvélinni og á leiðinni vestur þegar hann var í farþegasætinu.
Flugvélin lenti á Keflavíkurflugvelli nokkru eftir miðnætti en slysið varð um klukkan 10:40, eða um átta klukkustundum eftir að fjölskyldan ók af stað frá flugvellinum.
Fyrstu vegfarendur komu á vettvang aðeins nokkrum mínútum eftir slysið og leið stuttur tími áður en samband var haft við Neyðarlínuna og björgunaraðgerðir hófust.
Það tók þó nokkra stund að koma ökumanni og farþegum í land og undir læknishendur vegna staðsetningar slyssins þar sem langt var í sjúkrabíla, björgunarfólk og björgunarþyrlu.