Stríð í kjölfar heimsfaraldurs „gráglettni örlaganna“

„Hundruð milljónir manna kvenna og barna í heiminum búa nú …
„Hundruð milljónir manna kvenna og barna í heiminum búa nú við þann raunveruleika að næringarskortur og hungur er yfirvofandi.“ mbl.is/Hákon

Þór­dís Kol­brún Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ir ut­an­rík­is­ráðherra nefndi mik­il­vægi alþjóðasam­starfs og lýðræðis­legra rétt­inda okk­ar á Íslandi á flókn­um tím­um.

„Ein­hvers staðar heyrði ég sagt um dag­inn að það væri óvænt og ekki gleðilegt að upp­lifa tíma þar sem orð á borð við heims­far­ald­ur, hung­urs­neyð og heims­styrj­öld væru far­in að skjóta upp koll­in­um í frétt­um með reglu­legu milli­bili.

Engu að síður er þetta reynd­in,“ byrjaði Þór­dís Kol­brún ræðu sína.

Gráglettni ör­lag­anna

Hún hélt áfram og nefndi þá kald­hæðnis­legu staðreynd að strax í kjöl­far heims­far­ald­urs hafi haf­ist stríð:

„Gráglettni ör­lag­anna hagaði því þannig að inn­rás­in í Úkraínu átt sér stað dag­inn eft­ir að heil­brigðisráðherra til­kynnti um af­nám allra tak­mark­ana á Íslandi vegna far­ald­urs­ins og dag­inn eft­ir sprengjuregn Rússa hófst í Úkraínu, féllu tak­mark­an­irn­ar hér úr gildi.

Af­leiðing­ar af þess­um tveim­ur skaðvöld­um birt­ast svo í þeirri hrylli­legu staðreynd að yfir hundruðum millj­óna manna, kvenna og barna í heim­in­um vof­ir nú nær­ing­ar­skort­ur og hung­ur.“

Þrasið til marks um lýðræði

Þór­dís Kol­brún sagði okk­ur hér á landi að öllu leyti hepp­in. Átök þings­ins væri til marks um það.

„Vissu­lega er það þreytt tugga að stjórn­mála­menn, einkum þeir sem sitja í meiri­hluta, kvarti yfir smá­muna­semi og þrasgirni stjórn­ar­and­stöðunn­ar. Og ekki ætla ég að þykj­ast vera sak­laus af slíku,“ sagði hún og hélt áfram:

„Átök milli lýðræðis­lega kjör­inna full­trúa — sem stund­um eru hörð, og stund­um svíður und­an, og stund­um eru ósann­görn — eru birt­ing­ar­mynd heil­brigðis í opnu og lýðræðis­legu sam­fé­lagi þar sem mann­rétt­indi eru virt, stjórn­völd þurfa að standa skil á ákvörðunum sín­um og fólkið í land­inu hef­ur raun­veru­lega val­kosti um hvert skuli stefna.

Ísland er þannig sam­fé­lag og þannig vilj­um við vera.“

Vísaði í Selenskí

Loks þakkaði hún fyr­ir sam­hug sem ríkt hef­ur á Íslandi vegna inn­rás­ar Rúss­lands í Úkraínu. Hún vísaði í orð Volodimírs Selenskís, for­seta Úkraínu, þegar hann ávarpaði Alþingi:

„Það sem hríf­ur mig mest er að ykk­ur skul tak­ast að búa ykk­ur far­sælt þjóðlíf þrátt fyr­ir vá­lynd veður og hrjúfa nátt­úru, og að þjóð ykk­ar njóti ör­ygg­is og búi við lýðræði,“ hafði Þór­dís Kol­brún eft­ir Selenskí.

„Selenskí er for­seti þjóðar sem háir stríð til þess að tryggja til­veru sína,“ hélt hún áfram og bætti við:

„Öll okk­ar vel­sæld og frelsi bygg­ist á friðsæl­um heimi. Á þessu er mik­ill skiln­ing­ur hér á landi.“

Þakka megi alþjóðasam­starfi á borð við þátt­töku Íslands í NATO og EES fyr­ir.

„Ég stend hér og tala fyr­ir stjórn­mála­flokk sem hef­ur átt rík­an þátt í þeim ákvörðunum sem hafa leitt til þess að Ísland býr við þessa stöðu.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert