VG geti vísað veginn

Orri Páll Jóhannsson.
Orri Páll Jóhannsson. mbl.is/Hákon

Orri Páll Jóhannsson þingmaður VG sagði í eldhúsdagsumræðum á Alþingi í kvöld að ríkisstjórnarflokkarnir þrír hafi sýnt á síðustu fjórum árum að sjónarmið ólíkra flokka, sem spanna hið pólitíska litróf, geti sameinast á breiðum grundvelli landi og þjóð til heilla.

Vinstrihreyfingin – grænt framboð hefur sannað sig að vera sú stjórnmálahreyfing sem hefur kjark til að takast á við áskoranir og verkefni, stjórnmálahreyfing sem hikar ekki við samstarf við aðra, sem getur verið í forystu og getur vísað veginn, sagði Orri.

Þá fjallaði Orri um mikilvægi samfélagslegrar sáttar og benti á að um hana sé talað í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar.

„Við allar ákvarðanir er brýnt að við gætum að hagsmunum núverandi og komandi kynslóða, að við höfum sjálfbæra þróun að leiðarljósi þar sem jafnvægis á milli efnahagslegra, samfélagslegra og umhverfislegra þátta er gætt. Öðruvísi náum við ekki samfélagslegri sátt,“ sagði hann.

Verðum að standa með fólki í viðkvæmri stöðu

Þá sagði Orri okkur bera æra skyldu til þess að standa með fólki í viðkvæmri stöðu. Hann sagði það að vera friðarsinni fela síst í sér afskiptaleysi en því sé oft kastað fram sem höggstað á þá sem aðhyllast slíka stefnu. Friðarsinnum gæfist tækifæri til þess að berjast fyrir hugsjónum og friði með samúð og virðingu alls fólks að leiðarljósi.

„Ég stend fastar á því en fótunum að við vinnum ekki stríð með stríði. Þátttaka Íslands, sem her- og vopnlausrar þjóðar í alþjóðlegum átökum, grundvallast á því að tala fyrir friði og veita þeim skjól og vernd sem minnst mega sín. Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra hefur þegar beitt sér fyrir móttöku viðkvæmra hópa, þ.m.t. einstæðum mæðrum og börnum þeirra frá Afganistan og fötluðum börnum og fjölskyldum þeirra frá Úkraínu,“ sagði Orri.

„Fram undan er síðan stóra verkefnið að móta skýra og heildstæða stefnu í málefnum innflytjenda, en því fagna ég mjög enda auðgar fjölbreytni okkar samfélag,“ bætti hann við.

Skýr merki um áhrif VG

Orri fjallaði einnig um bætta stöðu hinsegin fólks á Íslandi og sagði það vera sérstakt fagnaðarefni að sjá Ísland hækka um fimm sæti á Regnbogakorti ILGA Europe enda Ísland meðal fremstu þjóða Evrópu þegar kemur að lagalegri stöðu og réttindum hinsegin fólks. Hann sagði árangurinn m.a. vera afurð góðra verka á síðasta kjörtímabili.

„Það að ríkisstjórnin standi að réttlátum breytingum í þessum málaflokkum eru skýr merki um áhrif Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, sagði Orri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert