Allt íslenskir karlmenn sem voru handteknir

Lögreglan greindi frá málunum tveim á blaðamannafundi í dag.
Lögreglan greindi frá málunum tveim á blaðamannafundi í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Þeir aðilar sem handteknir voru í aðgerðum lögreglu vegna fíkniefnamálanna tveggja sem lögreglan greindi frá fyrr í dag voru allir íslenskir karlmenn og voru þeir flestir á fimmtugsaldri. Þó er aldursbilið heldur vítt.

Þetta segir Grím­ur Gríms­son, yf­ir­lög­regluþjónn hjá miðlægri rann­sókn­ar­deild lög­regl­unn­ar, í samtali við mbl.is að loknum blaðamannafundi fyrr í dag.

Lög­regl­an lagði hald á fíkni­efni og efni til fram­leiðslu á fíkni­efn­um að and­virði 1,7 millj­arða króna í tengsl­um við um­fangs­mikla rann­sókn á skipu­lagðri brot­a­starf­semi hér á landi sem staðið hef­ur yfir síðustu mánuði.

Um er að ræða mesta magn fíkni­efna sem lagt hef­ur verið hald á í tengsl­um við eina rann­sókn sem er sam­starfs­verk­efni nokk­urra embætta. Tíu manns voru handteknir í hvoru máli.

Grímur segir magnið að vissu leyti hafa komið á óvart.
Grímur segir magnið að vissu leyti hafa komið á óvart. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Magnið hafi komið á óvart

Nú lögðuð þið hönd á sögulegt magn fíkniefna í þessum aðgerðum. Kom þetta magn ykkur á óvart?

„Já það kom að vissu leyti á óvart. Maður getur velt því fyrir sér af hverju það liggi svona mikið magn ónotað en síðan er það kannski ekkert skrítið vegna þess að starfsemin sé bara orðin þannig að framleitt sé eftir því sem þarf,“ segir Grímur.

Er fíkniefnanotkun hér á landi þá jafnframt að aukast?

„Ég held að notkun fíkniefna stígi töluvert frá ári til árs. Það er ríkt í okkur að gera ekki greinarmun á notendum en það er mikill munur á notendum fíkniefna. Það er til eitthvað sem hægt er að kalla helgarnotanda (e. recreational user) og svo er kannski fólk sem er sjúklingar.

Þetta er auðvitað ekki sami hópurinn en markaðurinn er svona víður. Það getur verið fólk sem er langt leitt annars vegar og svo fólk sem að notar þetta í tilgangi til að skemmta sér,“ segir Grímur.

Lögreglan lagði hald á gífurlegt magn fíkniefna.
Lögreglan lagði hald á gífurlegt magn fíkniefna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Rannsaka dreifinguna

Varðandi þessu tvö mál, hafið þið skoðað hvernig þessir aðilar hafa verið að dreifa sínum efnum?

„Það er til skoðunar hvernig dreifingin fer fram. Það kann að vera verkskipt aðild, það er einhver sem að flytur inn, einhver sem framleiðir og einhver sem selur. Þetta er að einhverju leyti birtingarmynd skipulagðrar brotastarfsemi, það vita ekki allir af öllum þó þeir tengist í starfseminni,“ segir Grímur.

Þá nefnir hann að forritin Facebook og Telegram hafi verið notuð við sölu fíkniefna hér á landi, þar sé salan tiltölulega lítið falin og geti nánast hver sem er keypt sér fíkniefnaskammt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert