Einstaklingum, sem vísa á úr landi, hafa verið gefin róandi lyf við handtöku í stöku tilfellum, enda þyki það nauðsynlegt sökum ástands þeirra.
Þetta kemur fram í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra, við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata. Fréttablaðið greindi fyrst frá.
Jón áréttar að lyf séu ekki gefin í þeim tilgangi að auðvelda yfirvöldum brottvísun, þannig að viðkomandi sé meðfærilegur í flutningum.
Aftur á móti hafi komið upp tilvik þar sem einstaklingur hafi „farið í þannig ástand að nauðsynlegt hefur verið að gefa viðkomandi róandi lyf í þeim tilgangi að viðkomandi skaði hvorki sjálfan sig né aðra.“
Er slíkt aðeins gert að undangenginni ákvörðun heilbrigðisstarfsfólks, en ekki samkvæmt beiðni stoðdeildar. Er lyfjagjöfin þá framkvæmd af heilbrigðisstarfsmanni.
Þá er brottvísun eða frávísun einnig frestað þar til ástand viðkomandi er metið svo, af lækni, að óhætt sé að flytja viðkomandi.