Hasar á Alþingi um lyfjagjöf flóttamanna

„Hvernig getur dómsmálaráðherra látið þetta viðgangast?,“ spurði Andrés meðan forseti …
„Hvernig getur dómsmálaráðherra látið þetta viðgangast?,“ spurði Andrés meðan forseti sló í bjölluna. Samsett mynd

Einstaklingum sem vísa á úr landi hafa verið gefin róandi lyf við handtöku áður en þeim er fylgt úr landi. Þetta kom fram í svari Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra við fyrirspurn Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns Pírata.

Vakti Andrés athygli á málinu í ræðustól Alþingis í morgun.

„Stundum fáum við svör við fyrirspurnum sem vekja upp fleiri spurningar en þær svara,“ sagði Andrés þegar hann steig upp í pontu undir liðnum störf þingsins.

Þar vitnaði hann í svar dómsmálaráðherra um þau þvingunarúrræði sem hefði verið beitt til að vísa fólki úr landi.

„Þetta var svo fyndið svar af því að það var öllu svarað nema því sem ég bað sérstaklega um,“ sagði Andrés.

Það hafi vekið grunnsemdir hans.

Hann hafi því sent aðra fyrirspurn þar sem hann spurði eingöngu um hvort lyfjagjöf hafi verið beitt gegn vilja fólks til að koma þeim úr landi.

Í svari frá ráðuneytinu kom fram að lyfjagjöf væri ekki beitt þegar senda ætti fólk úr landi.

„Hins vegar er einstaklingum oft gefin róandi lyf þegar það á að handtaka þá,“ hafði Andrés eftir svarinu.

„Síðan þegar á að senda þau úr landi þá eru þeim ekki gefin lyf. Það er búið að því.“

Enn vakna spurningar og enn hringdi bjallan

„Og enn vakna spurningar,“ sagði Andrés.

Þá lauk ræðutímanum og Birgir Ármannsson forseti Alþingis sló í bjölluna.

„Hvaða lagagrundvöllur er fyrir þessu? Hver ákveður þetta? Er það sami trúnaðarlæknir og braut lög þegar hann samþykkti brottflutning óléttrar albanskrar konu fyrir tveimur árum?“

Enn hringdi bjallan.

„Hvernig getur dómsmálaráðherra látið þetta viðgangast, nema vegna þess einmitt að umsækjendur um alþjóðlega vernd og fólk á flótta er fólk sem hann vill losna við?

Og það skiptir engu máli hvaða meðölum er beitt,“ lauk Andrés ræðu sína og stoppaði þá bjallan.

Sagði þá forseti:

„Forseti biður háttvirta þingmenn að gæta orða sinna, bæði í ræðustól og annars staðar. Forseti vill jafnframt benda á það að ræðutími í störfum þingsins eru tvær mínútur en ekki tvær og fjörutíu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka