Bandaríska loftlagsfyrirtækið Running Tide mun hefja starfsemi á Akranesi í sumar þar sem það mun nýta þá þekkingu sem það hefur aflað sér í hátækniþörungarækt og byggja upp starfsemi sína á því sviði. Frá þessu er greint í tilkynningu frá Akranesbæ.
Fyrirtækið mun leigja húsnæði undir aðstöðu fyrir rannsóknir og framleiðslu á þörungum til kolefnisbindingar í hafi á Akranesi og var samningur þess efnis undirritaður í dag. Verður einnig horft til þess að vera með starfsemi á Grundartanga.
Running Tide er nýstárlegt fyrirtæki sem þróar og nýtir tækni og aðferðir sem örva náttúruleg ferli sjávarins í að grípa, binda, og geyma kolefni til langs tíma.
Hluti lausnarinnar sem Running Tide vinnur að byggist á að rækta stórþörunga sem binda kolefni í stórum stíl á sérhönnuðum baujum á hafi úti en þörungarnir og baujurnar vinna einnig gegn súrnun sjávar. Lausnir fyrirtækisins á sviði kolefnisbindingar bæta þannig lífríki hafsins og skila ávinningnum til sjávarplássa og vistkerfa heimsins. Þróun og framleiðsla á þörungunum sjálfum verður staðsett á Akranesi og forsvarsmenn fyrirtækisins telja að Ísland hafi alla burði til að verða miðstöð kolefnisbindingar í heiminum.