Umsókn sjónvarpsmannsins Jóns Ársæls Þórðarsonar um áfrýjunarleyfi til Hæstaréttar hefur verið tekin til greina. Talið er að dómurinn geti haft fordæmisgildi um atriði sem leyfisbeiðnin er reist á.
Í apríl var Jón Ársæll dæmdur í Landsrétti til að greiða konu 800.000 krónur í miskabætur vegna birtingar sjónvarpsþáttar í þáttaröðinni Paradísarheimt sem hann var annar framleiðanda að. Ágreiningurinn laut meðal annars að því hvort að konan, sem rætt var við í þáttunum, hefði gefið skýrt og ótvírætt samþykki fyrir birtingu viðtala við sig.
Landsréttur vísaði til þess að verulegur hluti þeirra upplýsinga sem komu fram í þættinum teldust til viðkvæmra persónuupplýsinga.
Í leyfisbeiðninni byggði Jón Ársæll meðal annars á því að ekki hefði farið fram mat á því hvort ætti að vega þyngra, friðhelgi einkalífs eða tjáningarfrelsi fjölmiðlamanna.
Héraðsdómur sýknaði hins vegar í málinu og taldi að konan hefði verið meðvituð um tilgang viðtalanna og mætt í þau sjálfviljug. Ljóst hefði verið að tilgangurinn væri að birta viðtölin í Paradísarheimt, enda vandséð að tilgangurinn með því að taka upp viðtölin hefði getað verið annar.
Í öðru dómsmáli, sem varðaði einnig Paradísarheimt, var Jón Ársæll ásamt Ríkisútvarpinu dæmdur til að greiða Gyðu Dröfn Grétarsdóttur eina milljón króna með vöxtum. Gyða hafði stefnt þeim fyrir að birta viðtal við hana án hennar samþykkis í einum þætti í Paradísarheimt þar sem hún var viðmælandi.