Lögðu hald á fíkniefni að andvirði 1,7 milljarða

Grímur sagði málið hafa verið mjög umfangsmikið.
Grímur sagði málið hafa verið mjög umfangsmikið. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögreglan lagði hald fíkniefni og efni til framleiðslu á fíkniefnum að andvirði 1,7 milljarða króna í tengslum umfangsmikla rannsókn á skipulagðri brotastarfsemi hér á landi sem staðið hefur yfir síðustu mánuði.

Um er að ræða mesta magn fíkniefna sem lagt hefur verið hald á í tengslum við eina rannsókn sem er samstarfsverkefni nokkurra embætta.

Þetta kom fram á blaðamannafundi lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í dag, en þar var farið yfir tvö umfangsmikil mál sem lögreglan hefur haft til rannsóknar. Annað frá miðju ári 2020.

Tuttugu leitir gerðar í tengslum við málið

Meðal þess sem lagt var hald í fyrrnefndri rannsókn voru á 200 kannabisplöntur, 200 kg af maríjúana, 20 kg af hassi, sjö kíló af mdma kristal, sem hægt er að framleiða úr 50 þúsund e-töflur, 7.000 e-töflur, rúmlega 20 lítra af mdma basa, sem hægt er að framleiða 200 þúsund e-töflur úr. 40 lítra af amfetamínbasa, en miðað við styrkleika má framleiða 170 kg af amfetamíni úr því, og 20 kg af kristalmetamfetamíni.

Margeir Sveinsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild, sagði að hópur manna hefði verið til rannsóknar vegna málsins grunaðir um aðild að umfangsmikilli dreifingu og sölu fíkniefna.

Alls hafi tuttugu leitir verið gerðar í ökutækjum og húsnæði í tengslum við rannsóknina og tíu verið handteknir. Fimm hafi verið hnepptir í gæsluvarðhald og er einn enn í haldi.

Fundu efni til að framleiða 117 kg af amfetamíni

Grímur Grímsson, yfirlögregluþjónn hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar, sagði á fundinum að lögreglu hefðu borist upplýsingar frá Europol um skipulagða brotastarsemi hér á landi um mitt ár 2020 og í kjölfarið hafi Ríkislögreglustjóri, Lögreglan á Suðurnesjum, Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu og Ríkisskattstjóri hafið rannsókn. 

Í byrjun síðasta árs hafi fundist efni sem notuð voru til að framleiða rúmlega 117 kíló af amfetamíni og jafnframt hafi verið haldlögð fimm kíló af amfetamíni í annarri rannsókn. Götuvirði efnanna er um 700 milljónir króna.

Í maí síðastliðnum réðst lögregla svo í aðgerðir á höfuðborgarsvæðinu og voru þá tíu handteknir vegna málsins. Fimm voru úrskurðaðir í gæsluvarðhald og þrír eru enn í haldi.

Fengu aðgang að dulkóðuðum samskiptum

Hulda Elsa Björgvinsdóttir, sviðsstjóri ákærusviðs, sagði að vinna ákærenda og rannsakenda hefði verið gríðarlega mikil í málinu og að mikill tími hefði farið í greiningar sakarefnis. Þá hafi töluverður tími farið í samskipti við önnur ríki. 

Sagði hún sakborninga hafa nýtt sér samskiptaforritið EncroChat til að eiga dulkóðuð samskipti. Þannig hafi þeir getað hulið slóð sína og notið nafnleyndar. Forrit sem þessi hafi átt að vera alveg örugg og verið markaðsett fyrir brotahópa til að eiga samskipti

Íslensk lögregluyfirvöld fengu formlega heimild til að fara yfir gögn sem erlend lögregluyfirvöld komust yfir úr forritinu, þar sem finna mátti skilaboð um skipulagða glæpastarfsemi hér á landi, sérstaklega varðandi framleiðslu og innflutning á fíkniefnum og peningaþvætti.

Halla Bergþóra Björns­dótt­ir lög­reglu­stjóri var viðstödd fundinn.
Halla Bergþóra Björns­dótt­ir lög­reglu­stjóri var viðstödd fundinn. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert