Mikilvægast að jafna starfsskilyrði

Landbúnaðurinn býr ekki við eðlileg starfsskilyrði, miðað við Evrópulönd, að …
Landbúnaðurinn býr ekki við eðlileg starfsskilyrði, miðað við Evrópulönd, að mati nýstofnaðra samtaka. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Greiningarvinna nokkurra fyrirtækja í landbúnaði hefur leitt það í ljós að íslenskir bændur og fyrirtæki í landbúnaði búa við lakari starfsskilyrði en starfssystkin þeirraí öllum öðrum löndum Evrópu. Mikilvægasta verkefni samtakanna í upphafi er að jafna þessi starfsskilyrði. Þá er ekki átt við þann bráðavanda sem nú er uppi í landbúnaði, hann kemur ofan á. Það er til dæmis að nálgast úrslitastund í einstaka greinum, eins og í framleiðslu nautgripakjöts og sauðfjárrækt,“ segir Sigurjón R. Rafnsson, aðstoðarkaupfélagsstjóri KS og formaður nýstofnaðra Samtaka fyrirtækja í landbúnaði, SAFL.

Reiknað er með að samtökin muni heyra undir Samtök atvinnulífsins, líkt og aðrar atvinnugreinar, sjávarútvegur, ferðaþjónusta og iðnaður.

„Landbúnaðurinn er mikilvæg atvinnugrein, einn af grunnatvinnuvegum landsins. Bein aðild er liður í því að umræða um landbúnaðinn sé á því plani sem hann á skilið,“ segir Sigurjón.

Á þriðja tug fyrirtækja eru í samtökunum. Mörg þeirra hafa tekið þátt í SA í gegnum Samtök iðnaðarins. Auk hefðbundinna afurðasölufyrirtækja bænda eiga ýmis einkafyrirtæki aðild að samtökunum, til dæmis framleiðendur svína- og kjúklingakjöts, Sölufélag garðyrkjumanna og fóðurfyrirtæki. Framkvæmdastjóri SAFL er Margrét Gísladóttir, sem áður starfaði í mörg ár hjá Landssambandi kúabænda og Bændasamtökum Íslands.

Ísland rekur lestina

Sigurjón telur að fólk haldi almennt að búvörur séu greiddar meira niður hér af stjórnvöldum en vörur í öðrum löndum Evrópu. „Því er þveröfugt farið því það hallar verulega á íslenska bændur og fyrirtæki í landbúnaði í samanburði við önnur Evrópulönd,“ segir Sigurjón og nefnir víðtækar undanþágur frá samkeppnislögum sem gerir fyrirtækjum erlendis auðveldara um vikað sameinast og hagræða. Aðlögun reglugerða að aðstæðum hvers ríkis hafi ekki verið nógu góð hér. Þá fái bændur minni beinan stuðning sem tengdur er framleiðslu, tollvernd og tollaeftirliti en bændur í nágrannalöndum og sama gildi um stuðning sem tengist ekki framleiðslu.

„Óhætt er að fullyrða að Ísland rekur lestina þegar kemur að því að skapa landbúnaðinum sambærileg starfsskilyrði og í þeim löndum sem við viljum bera okkur saman við.“ Hann bendir einnig á að reiknaður stuðningur, eins og tollvernd, hafi dregist mjög saman á síðustu árum vegna óhagstæðra samninga við önnur ríki.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert