Sanna Magdalena Mörtudóttir, formaður borgarstjórnarflokks Sósíalista, segir enga skýra hugmyndafræði koma fram í meirihlutasáttmála nýrrar borgarstjórnar, um hvernig mæta megi grunnþörfum þeirra sem hafa það verst.
„Það er einu sinni minnst á fátækt í sáttmálanum,“ segir hún og telur ljóst að borgarstjórnin verði á miðjunni.
„Þannig það er þeirra stefna eins og við sósíalistar sjáum þetta hér í borginni. Að það verði haldið áfram á sömu braut og ekki tekin stéttagreining. Það er ekki verið að greina stöðuna og fara djúpt á málin eins og ég sé þetta. Það er ekki verið að leita grunnþarfa til þeirra sem hafa það verst og ég sé ekki einhverja skýra hugmyndafræði þarna,“ segir hún.
Í ályktun Sósíalistaflokksins um meirihlutasáttmálann segir:
„Velferð íbúa er eitt aðal hlutverk sveitarfélaga. Stéttaskipting fer vaxandi í okkar samfélagi þar sem fátækt er bláköld staðreynd. Það er orðið illmögulegt fyrir fólk að koma sér upp þaki yfir höfuðið þar sem einstaklingshyggjan ræður för og mottóið er að hver sé sinnar gæfu smiður. Það er litið framhjá þeim samfélagslegu þáttum sem viðhalda ójöfnuði.“
Í kjölfarið segir að húsnæðiskrísan verði ekki leyst með því að leyfa eignafólki og fjármagnseigendum að halda áfram að sanka að sér húsnæði og byggingarlóðum. Þar að auki sé meirihlutasáttmálinn áframhald þess sem hingað til hefur ekki virkað og skyldum sveitarfélagsins sé ekki sinnt í húsnæðis- og velferðarmálum.