Deildarmyrkvi á sólu sem sást hér, á Bretlandseyjum og Grænlandi 10. júní í fyrra, hafði mælanleg veðurfarsleg áhrif. Þetta kemur fram í nýrri grein eftir Edward Hanna og fleiri vísindamenn sem birtist hjá Royal Meterological Society. Í þeim hópi eru m.a. íslensku veðurfræðingarnir Halldór Björnsson og Trausti Jónsson. Tengill á greinina er á vedur.is.
„Sólmyrkvar hafa ekki stórkostleg veðurfarsleg áhrif en þau eru samt svolítil,“ sagði Halldór í samtali við Morgunblaðið. Hann sagði að Edward Hanna sé áhugasamur um áhrif sólmyrkva og hafi áður óskað eftir gögnum héðan í tengslum við slík fyrirbæri.
Halldór sagði mikilvægt að einhver tæki þessi gögn saman og héldiþeim til haga. Hann benti á að mjög skýjað hefði verið í fyrra þegar deildarmyrkvinn varð. Þótt sólmyrkvinn hefði verið nokkuð mikill hér á landi hefðu áhrifin verið minni en ef hér hefði verið heiðskírt.
Fram kemur í greininni að hitastig hér á landi hafi lækkað lítillega meðan á deildarmyrkvanum stóð en tunglið huldi um 60% af sólinni, frá Íslandi séð, á meðan myrkvinn var í hámarki. Skýringarmynd, sem byggð er á gögnum frá íslenskum veðurstöðvum, sýnir að lofthiti við yfirborð lækkaði á meðan sólmyrkvinn stóð yfir samkvæmt mælingum á 170 stöðvum og einnig dró lítillega úr vindhraða samkvæmt mælingum á 255 stöðvum. Um leið og deildarmyrkvanum lauk, hækkaði hitinn hratt aftur og heldur bætti aftur í vind.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.