Í ljósi reynslunnar erlendis er líklegt að haldlagning lögreglunnar á fíkniefnum að andvirði 1,7 milljarða og handtökur í kjölfarið, muni hafa tímabundin áhrif á fíkniefnamarkaðinn. Þetta segir Helgi Gunnlaugsson afbrotafræðingur. Á sama tíma er um að ræða ákveðinn hvalreka fyrir íslensk lögregluyfirvöld.
Lögreglan hefur aldrei lagt hald á jafnmikið fíkniefna og í fíkniefnarannsókn sem hefur staðið yfir síðastliðna mánuði. Helgi segir líklegt að nýir aðilar muni ryðja sér rúms á markaðnum eftir þessar aðgerðir þótt einhver þurrð gæti orðið fyrst um sinn.
„Ef við skoðum Ísland á síðastliðnum árum markaðinn og verðlag þá hafa svona stórar haldlagningar og handtökur ekki haft nein mikil áhrif á markaðinn. Það getur verið í mesta lagi tímabundið en þetta jafnar sig mjög fljótt. En nú veltur maður fyrir sér þar sem þetta er umfangsmikið og margir aðilar,“ segir hann en þá gæti þurrðin staðið yfir lengur en ella.
„Enda er þetta stór markaður og það er eftirspurn. Menn sjá auðvitað hagnað og eru fljótir að finna hann og komast í þetta,“ segir hann. Þeir sem hafa verið handteknir í málinu eru íslenskir karlmenn.
„Auðvitað sýnir þetta okkur að þessi brotastarfsemi er mjög skipulögð. Þetta er ekki eitthvað sem er að byrja í dag eða fyrra, þetta er net sem er búið að vera til mjög lengi,“ segir Helgi.