Útlendingafrumvarp ekki afgreitt í vor

Frumvarp dómsmálaráðherra verður ekki afgreitt í vor en ráðherrann býst …
Frumvarp dómsmálaráðherra verður ekki afgreitt í vor en ráðherrann býst við því að það verði aftur sett á dagskrá í haust. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Margumdeilt frumvarp Jóns Gunnarssonar dómsmálaráðherra um hælisleitendur nær ekki fram að ganga og verður frestað til haustsins. Fjöldi mála bíða nú afgreiðslu í þinginu og er ljóst að þau verða ekki öll kláruð fyrir þinglok.  

Ráðherrann fundaði með fulltrúum Samfylkingar, Flokki fólksins og Viðreisn til þess að ná breiðari samstöðu um málið en það gekk ekki eftir.

Náðist ekki samstaða með stjórnarandstöðu

„Ég setti mig í samband við þau á föstudag í síðustu viku og reyndi að fá samtal um hvort við gætum náð saman um ágreiningsmál, hvort við gætum náð víðtækari sátt um málið,“ segir hann. Samfylking, Viðreisn og Flokkur fólksins sendu úrbótatillögur og var fundað í kjölfarið.

„Við náðum að teygja okkur ansi mikið á móti þeim,“ segir Jón en það sem helst stóð út af var ákvæði í frumvarpinu um afnám framfærslu hælisleitenda sem hafa fengið synjanir á tveimur stjórnsýslustigum. 

Síðan hafi Jón óskað eftir frekari fundarhöldum með fulltrúum Viðreisnar, Samfylkingar og Flokki fólksins. „En þau höfnuðu því og sögðu að það væri allur pakkinn eins og þau settu hann fram eða ekkert,“ segir Jón og því hafi ekki verið hægt að klára málið. „En málið er ekki farið frá okkur, það þarf að framkvæma breytingar á þessari löggjöf og það er eitthvað sem ég mun beita mér fyrir á fyrstu dögum þings,“ segir Jón í lokin.

Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar.
Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Engin stemning“ fyrir málinu á Alþingi 

„Það er verulega ánægjulegt að málið hafi verið slegið út af borðinu og ég tel ólíklegt að ríkisstjórnin fari aftur fram með þetta. Það er engin stemning fyrir því á Alþingi eða í samfélaginu að taka þennan hóp og tæta niður mannréttindi þeirra,“ segir Sigmar Guðmundsson, þingmaður Viðreisnar. 

Sigmar segir af og frá að stjórnarandstaðan hafi ætlað að semja við dómsmálaráðherra um tillögur flokkanna þriggja. Ekki hafi verið hægt að sættast á tillögur sem hann kom með á móti.

„Hann er með frumvarp inn í þinginu sem allir slátruðu í umsögnunum, því þetta er afturför í réttindum hælisleitenda og málsmeðferð þeirra. Það var orðið ljóst að þetta mál var að tefja fyrir þinglokum og við lögðum fram nokkrar tillögur til breytinga á þessum frumvarpi hans. Þá vorum við að taka tillit til þess sem Rauði Krossinn og fleiri hafa vakið máls á,“ segir hann. Hins vegar hafi ráðherra komið  með tillögur á móti, sem stjórnarandstaðan hafi ekki getað sætt sig við.

„Við erum ekki að fara að hjálpa honum með frumvarp sem er svona mikil afturför fyrir réttindi fólks,“ segir Sigmar í lokin.

Málinu hefur verið mótmælt ötullega og fóru fram nokkur mótmæli á Austurvelli vegna þess í vor en Rauði krossinn sendi þá inn 28 blaðsíðna umsögn um frumvarpið á Samráðsgátt þar sem ýmis atriði voru gagnrýnd. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert