Búið að skipa starfshóp vegna þjóðarleikvangs

Landsliðs Íslands í körfuknattleik og handknattleik eru heimilislaus eftir að …
Landsliðs Íslands í körfuknattleik og handknattleik eru heimilislaus eftir að leki kom upp í Laugardalshöll í nóvember á síðasta ári. mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Uppbyggingu nýrrar þjóðarhallar fyrir innanhúsíþróttir hefur verið formlega ýtt úr vör með skipun sameiginlegs starfshóps ríkis og borgar sem er falið að fylgja eftir tímasettri framkvæmdaáætlun. Á næstu vikum verður skipað í framkvæmanefnd og ráðgjafaráð.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, Ásmundur Einar Daðason mennta- og barnamálaráðherra og Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, undirrituðu viljayfirlýsingu um byggingu nýrrar þjóðarhallar fyrir innanhúsíþróttir í byrjun maí. 

Þjóðarhöllin mun koma til með að rísa í Laugardal og á hún að uppfylla kröfur fyrir alþjóðlegar keppnir í innanhúsíþróttagreinum sem og þarfir Reykjavíkurborgar fyrir aðstöðu fyrir skóla og íþróttafélög. 

Starfshópurinn skipaður

Borgarráð staðfesti í dag erindisbréf þar sem ríkið og Reykjavíkurborg skipa sameiginlega framkvæmdanefnd og ráðgjafaráð um uppbyggingu þjóðarhallarinnar. Jafnframt hefur verið skipaður starfshópur sem falið er að vera fulltrúar eigenda vegna uppbyggingar mannvirkisins.

Starfshópinn skipa Arnar Þór Sævarsson, fulltrúi mennta- og barnamálaráðherra, Huginn Freyr Þorsteinsson, fulltrúi forsætisráðherra og Steinunn Sigvaldadóttir, fulltrúi fjármálaráðherra. Fulltrúar Reykjavíkurborgar eru svo þrír, þau Ómar Einarsson, Halldóra Káradóttir og Þórhildur Lilja Ólafsdóttir.

Starfsmaður nefndarinnar er Örvar Ólafsson sérfræðingur í mennta- og barnamálaráðuneyti.

ÍSÍ, ÍBR, Þróttur og Ármann fá fulltrúa

Fagleg vinna vegna allra þátta uppbyggingar, svo sem hönnunar, útboða, tæknilegrar útfærslu, rekstrarforms og fjármögnunar, er leidd af framkvæmdanefnd sem verður skipuð tveimur fulltrúum ríkisins og tveimur fulltrúum Reykjavíkurborgar.

Starfshópi til ráðgjafar vegna uppbyggingarinnar verður nýtt ráðgjafaráð undir formennsku fulltrúa Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands sem verður einnig skipað fulltrúum frá Íþróttabandalagi Reykjavíkur, skóla- og frístundasviði Reykjavíkurborgar, knattspyrnufélaginu Þrótti og íþróttafélaginu Ármanni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert