Verðlag á ólöglegum fíkniefnum hefur haldist nokkuð stöðugt. Verðbólgan smitast ekki yfir í fíkniefnamarkaðinn, enda fer hann ekki í gegnum neinar hefðbundnar boðleiðir þar sem hækkun launa, mannekla og hrávöruskortur hafa áhrif.
Þannig ræðst verðið alfarið af framboði og eftirspurn, að sögn Valgerðar Rúnarsdóttur, forstjóra Vogs, meðferðarúrræðis SÁÁ.
„Það virðist vera mikið framboð og verð hafa haldist nokkuð stöðug.“
Bersýnileg fylgni er milli neyslu kókaíns og efnahags, en það má sjá á því hvernig kókaínneysla var í hámarki árið 2007 og dróst svo verulega saman árið 2008, bendir Valgerður á.
Þá jókst hún á ný 2018 og 2019 en dróst saman með heimsfaraldrinum. Áfengisneysla varð aftur á móti meiri sem og notkun sterkra verkjalyfja eins og ópíóða.
Vogur tekur saman upplýsingar yfir verð á þeim efnum sem eru í umferð í hverjum tíma. Samkvæmt þeirri skrá eru verð á helstu fíkniefnunum eftirfarandi.
Þann 30. apríl kostaði hass 3.000 krónur, en gras 2.400 krónur.
Spice kostaði 3.700 krónur, amfetamín 3.800 krónur og metamfetamín 14 þúsund, sem er einnig verðið á kristal (e. Crystal Meth).
MDMA kostar 7.900 krónur hvert gramm og kókaín grammið kostar 17 þúsund krónur. Heróín kostar 30 þúsund krónur og Ketamín 12 þúsund. Stykkið af E-töflu kostar 2.600 krónur.
Þá eru í umferð ýmis lyfseðilsskyld lyf, svo sem rítalín, en 20 millígrömm kosta 1.000 krónur. Tafla af Concerta er seld á 1.000 krónur, ef um er að ræða 27 millígrömm, en 54 milligrömm kosta 2.500 krónur.
Parkódín forte fæst á 500 krónur. Contalgin, 200 milligrömm, kostar 7.000 krónur og OxyContin, 80 milligrömm, selst á 5.000 krónur.
Lögreglan greindi frá því á blaðamannafundi í gær að hún hefði lagt hald á fíkniefni og efni til framleiðslu á fíkniefnum að andvirði 1,7 milljarða króna í tengslum umfangsmikla rannsókn á skipulagðri brotastarfsemi hér á landi sem staðið hefur yfir síðustu mánuði.
Valgerður segir þetta verulegt magn og áhugavert verði að fylgjast með hvort það komi til með að hafa áhrif á verð og á samfélag fíkniefnaneytenda.
Meðal þess sem lagt var hald á í fyrrnefndri rannsókn, voru á 200 kannabisplöntur, 200 kílógrömm af maríjúana og 20 kílógrömm af hassi.
Sjö kíló af MDMA kristal, sem hægt er að framleiða úr 50 þúsund e-töflur, sjö þúsund E-töflur, rúmlega 20 lítra af MDMA basa, sem hægt er að framleiða 200 þúsund e-töflur úr.
Þá var lagt hald á 40 lítra af amfetamínbasa, en miðað við styrkleika má framleiða 170 kílógrömm af amfetamíni úr því, og 20 kílógrömm af kristalmetamfetamíni.