Frumvarp um skipun nefndar samþykkt

Borgin samþykkti að gera úttekt á starfsemi vistheimilanna fyrir tæpu …
Borgin samþykkti að gera úttekt á starfsemi vistheimilanna fyrir tæpu ári. Ljósmynd/Aðsend

Alþingi samþykkti í gær samhljóða frumvarp sem kveður á um nauðsynlegar heimildir í lögum til að greiða leið fyrirhugaðrar úttektar Reykjavíkurborgar á starfsemi Vöggustofunnar að Hlíðarenda og Vöggustofu Thorvaldsensfélagsins. Mun borgin skipa nefnd til að kanna starfsemina.

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir að hér sé um að ræða mikilvæga söguskoðun sem hægt verður að draga lærdóm af fyrir framtíðina og tryggja réttlæti en oft voru það börn foreldra sem voru jaðarsettir vegna fátæktar, aldurs, veikinda eða félagslegrar stöðu sem voru vistuð á þessum heimilum. Þetta kom fram í færslu hennar á Facebook.

Lýstu slæmum starfsháttum

Fyrir tæpu ári síðan samþykkti Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að borgin myndi rannsaka vistheimilin að loknum fundi með fulltrúum Réttlætis, sem er hópur manna sem hefur vakið athygli á starfsaðferðunum sem var beitt á vöggustofunum. Í greinargerð mannanna var starf­semi vöggu­stof­anna meðal ann­ars lýst með eft­ir­far­andi hætti:

„Á Hlíðar­enda og síðar Vöggu­stofu Thor­vald­sen­fé­lags­ins var skipu­lag starf­sem­inn­ar vél­rænt og örvun á vits­muna- og til­finn­ingaþroska barn­anna var ekki á dag­skrá. Á hon­um voru þrír stór­ir glugg­ar og í gegn­um þá var hægt að fylgj­ast með börn­un­um í ber­strípuðum, sótt­hreinsuðum og upp­lýst­um her­bergj­um. Þar voru þau lát­in liggja í rimla­rúm­um án örvun­ar því starfs­fólki var for­boðið að snerta eða tala við þau að nauðsynja­lausu.“

Skorti heimildir

Skipa átti úttektarnefnd fyrir rannsóknina í október á síðasta ári en sú framkvæmd tafðist þó og mátti ástæðuna rekja til lagalegra álitamála. Skorti borginni nauðsynlegar rannsóknarheimildir til að ráðast í úttektina, varðaði málið m.a. lög um persónuvernd. 

Fulltrúar borgarinnar gengu því á fund með fulltrúum forsætisráðuneytisins sem féllust á að aðstoða við rannsóknina með því að beita sér fyrir nauðsynlegum lagaheimildum. Í gær var frumvarp ráðuneytisins svo samþykkt á Alþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert