Náðu erlendum ferðamanni úr sjónum

Þyrla Landhelgisgæslunnar á vettvangi.
Þyrla Landhelgisgæslunnar á vettvangi. mbl.is/Jónas Erlendsson

Björgunarsveitir á Suðurlandi og í Vestmannaeyjum, ásamt björgunarskipum- og bátum, voru kallaðar út vegna slyss í Reynisfjöru á fimmta tímanum síðdegis í dag. Þar hafði erlendur ferðamaður farið í sjóinn með öldu. 

Útkall vegna slyssins barst klukkan tuttugu mínútur í fimm og rétt rúmum klukkutíma síðar var þyrla Landhelgisgæslunnar komin á vettvang. Var ferðamaðurinn fluttur um borð í hana en að sögn lögreglunnar á Suðurlandi tók skamma stund að ná manninum upp úr sjónum eftir að þyrluna bar að garði.

Björgunarsveitir að störfum í Reynisfjöru nú síðdegis.
Björgunarsveitir að störfum í Reynisfjöru nú síðdegis. mbl.is/Jónas Erlendsson

Maðurinn var á ferð með eiginkonu sinni í stærri hópi í skipulagðri ferð, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Hefur hún kallað til aðstoð áfallateymis Rauða krossins til að hlúa að  fólki úr hópnum.

Rannsókn á slysinu og tildrögum þess er hafin af hálfu lögreglu.

Ekki hafa fengist upplýsingar um ástand mannsins.

Fréttin hefur verið uppfærð miðað við nýjustu vendingar í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert