Ríflega 360 þátttakendur eru skráðir í árlegt inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði við læknadeild Háskóla Íslands sem hófst í gær og lýkur í dag. Prófahald verður í fyrsta sinn alfarið rafrænt.
Samkvæmt upplýsingum frá HÍ munu alls 295 þreyta inntökupróf í læknisfræði og þá sækjast 68 manns eftir inngöngu í sjúkraþjálfunarfræði. Sama próf er lagt fyrir alla þátttakendur og þeir sem standa sig best á prófinu eiga kost á að hefja nám.
Fjöldi þeirra sem veitt er innganga miðast við afkastagetu sjúkrahúsanna við verklega þjálfun nemenda. Í læknisfræði verða teknir inn 60 nemendur og 35 nemendur í sjúkraþjálfunarfræði.
Inntökuprófið hefur um langt skeið farið fram í húsnæði Menntaskólans við Hamrahlíð en nú er það haldið í fjórum byggingum Háskólans: Háskólatorgi, Árnagarði, Eirbergi og aðalbyggingu.
Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu í dag.