Jóhannes Sigurjónsson, blaðamaður og útgefandi á Húsavík, lést á Landspítala sl. fimmtudag, 68 ára að aldri.
Jóhannes fæddist í Bolungarvík 16. febrúar 1954. Foreldrar hans voru Herdís Salbjörg Guðmundsdóttir húsmóðir og Sigurjón Jóhannesson skólastjóri.
Jóhannes lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Tjörnina 1974 og stundaði nám við Háskóla Íslands í ensku og íslensku.
Hann var kennari við Gagnfræðaskóla Húsavíkur 1982 og ritstjóri Víkurblaðsins á Húsavík frá 1979 til 1996. Hann var blaðamaður hjá Degi 1997 til 2001 og DV 2001 en frá 2002 til 2020 var hann ritstjóri blaðsins Skarps á Húsavík.
Jóhannes sat meðal annars í stjórn knattspyrnudeildar Völsungs og Samtaka bæjar- og héraðsfréttablaða. Hann sendi frá sér ljóðabókina Æpt varlega, þrjú bindi af Sönnum þingeyskum lygasögum, samdi leikþætti og texta á hljómplötum og skrifaði viðtöl og greinar í bókum og tímaritum.
Eiginkona Jóhannesar var Sigríður Kristín Þórhallsdóttir, þau skildu. Börn þeirra eru Þórdís og Sigurjón. Stjúpbörn Jóhannesar eru Kristján Gunnar, Arnar og Guðrún Sigríður Þorvarðarbörn.