Of oft hefur björgunarsveitin Víkverji verið kölluð út vegna slyss í Reynisfjöru, að sögn Inga Más Björnssonar formanns Víkverja.
Það gerðist einmitt í gær, en erlendur ferðamaður á áttræðisaldri drukknaði þegar sjórinn hreif hann með sér.
Ingi segir að búið sé að margræða hvernig aðgerða sé hægt að grípa til svo unnt sé að sporna við þessu. Það sé þó erfitt að gera annað en að setja enn meiri kraft í fræðslu til ferðamanna.
Útilokað sé að girða fyrir eða loka hættulegasta svæðið af. „Við þyrftum þá að loka allri suðurströndinni.“
„Það þarf að koma þessu betur til fólks en ég veit ekki hvernig, það labbar framhjá varúðarskiltunum án þess að líta á þau.“
Honum dettur þó í hug að hægt væri að koma fræðsluefni betur að í flugvélunum þegar fólk er á leið til landsins.
Þyrla Landhelgisgæslunnar var kölluð út vegna slyssins og náði hún á staðinn um klukkustund eftir að það átti sér stað. Ingi segir þetta ekki óvanalega langan tíma.
„Það hefði samt ekki skipt máli þó hún hefði verið mætt á tíu mínútum, þetta er svo afskaplega stuttur tími sem fólk hefur.“
„Við erum að taka á móti mikið af fólki í þessu erfiða landi.“ Hann kveðst ekki minnast þess að hafa nokkurn tíma séð Íslendinga fara óvarlega í Reynisfjöru.
Maðurinn sem lést í Reynisfjöru var í fylgd með leiðsögumanni, sá hafði varað hópinn við því að fjaran væri hættuleg. Ingi telur leiðsögumenn almennt gera það, en erfitt sé að fylgjast náið með hverjum einstaklingum í hópnum þegar fjöldi ferðamann er saman kominn í fjörunni.
Fimm einstaklingar hafa látist í fjörunni á undanförnum sjö árum og tólf alvarleg útköll hafa borist.
Þá gerist það oft að fólk fer í sjóinn, þó það lendi ekki í slysi, eða bakki í átt að öldununum meðan það reynir að ná hinni fullkomnu sjálfsmynd, að sögn Inga.