Lögregla lokaði í gær Hótel Geo, sem opnaði þann 1. júní, vegna þess að rekstraraðilar höfðu ekki tilskilin leyfi. Þetta staðfestir Úlfar Lúðvíksson, lögreglustjóri á Suðurnesjum.
Gestir dvöldu á hótelinu þegar lögreglu bar að garði og er nú verið að vinna að því að finna þeim nýja gistingu, að sögn Grétars Hannessonar, eiganda og framkvæmdastjóra fjárfestingafélagssins Lundar sem á húsið.
Hótel Geo er í húsi sem áður hýsti félagsheimilið Festi, í Grindavík. Húsinu var breytt í í hótel fyrir nokkrum árum og síðasta sumar opnaði þar Volcano Hotel og Festi Bistró. Þeim rekstri var þó hætt síðastliðið haust þar sem raki og mygla komu upp í húsnæðinu.
Grétar segir að það hafi verið búið að ráða bót á því áður en hótel var opnað í húsnæðinu á ný.
Verkfræðistofan Efla vann skýrslu vegna myglunnar, sem var skilað þann 17. mars, sem mbl.is hefur undir höndum. Þar kemur fram að fjarlægja þurfi allt rakaskemmt efni til að koma í veg fyrir frekari skemmdir. Endurnýja þurfi glugga og yfirfara frágang á þakdúk. Mygla sé í parketi og ílögn svo þörf er á endurnýjun fyrir allt gólfefni.
Hreinsa skuli burt múr og einangrun og endurgera veggi þannig að takmarka megi rakaskemmdir. Þá var frágangur á útveggjum sums staðar ekki talinn fullnægjandi.
Heilbrigðiseftirlit Suðurnesja gaf í kjölfarið út eftirlitsskýrslu, dagsett 1. apríl 2022, þar sem fram kom að raka- og mygluvandamál væru það útbreidd og umfangsmikil að heilsu manna til að dvelja í húsinu væri hætta búin.
Því væri ráðlegast að hætta rekstri og ráðast strax í úrbætur með hliðsjón af skýrslu Eflu.
Húsið er, sem áður segir, í eigu Lunds fjárfestingafélags, sem stendur nú að rekstri hótels Geó að forminu til, en Grétar segir aðra rekstraraðila sinna rekstrinum. Hann kýs þó að gefa ekki upp nöfn viðkomandi.
„Það er búið að skipta um gólfefni og mála og gera við alla glugga. Það þurfti ekki að skipta þeim út heldur bara að endurþétta. Það lak með gluggum í vetur enda vitlaust veður en það er ekkert að þakinu,“ segir Grétar í samtali við mbl.is.
Þær viðgerðir sem ráðast þurfti í áður en hótelið opnaði aftur voru leystar af hendi á einum mánuði án vandkvæða, að sögn Grétars.
Hann segir að fengnir hafi verið verktakar og verkfræðingar í verkið, en telur ekki koma málinu við hvaða verktakar það voru.