Hótel GEO lokað og gestum vísað út

Geó Hótel opnaði þann 1. júní án tilskilinna leyfa fyrir …
Geó Hótel opnaði þann 1. júní án tilskilinna leyfa fyrir reksturinn og var því lokað í gær. Ljósmynd/ Björn Birgisson

Lög­regla lokaði í gær Hót­el Geo, sem opnaði þann 1. júní, vegna þess að rekstr­araðilar höfðu ekki til­skil­in leyfi. Þetta staðfest­ir Úlfar Lúðvíks­son, lög­reglu­stjóri á Suður­nesj­um. 

Gest­ir dvöldu á hót­el­inu þegar lög­reglu bar að garði og er nú verið að vinna að því að finna þeim nýja gist­ingu, að sögn Grét­ars Hann­es­son­ar, eig­anda og fram­kvæmda­stjóra fjár­fest­inga­fé­lagss­ins Lund­ar sem á húsið.

Hót­el Geo er í húsi sem áður hýsti fé­lags­heim­ilið Festi, í Grinda­vík. Hús­inu var breytt í í hót­el fyr­ir nokkr­um árum og síðasta sum­ar opnaði þar Volcano Hotel og Festi Bistró. Þeim rekstri var þó hætt síðastliðið haust þar sem raki og mygla komu upp í hús­næðinu. 

Grét­ar seg­ir að það hafi verið búið að ráða bót á því áður en hót­el var opnað í hús­næðinu á ný.

„Heilsu manna hætta búin“

Verk­fræðistof­an Efla vann skýrslu vegna mygl­unn­ar, sem var skilað þann 17. mars, sem mbl.is hef­ur und­ir hönd­um. Þar kem­ur fram að fjar­lægja þurfi allt raka­skemmt efni til að koma í veg fyr­ir frek­ari skemmd­ir. End­ur­nýja þurfi glugga og yf­ir­fara frá­gang á þak­dúk. Mygla sé í par­keti og ílögn svo þörf er á end­ur­nýj­un fyr­ir allt gól­f­efni. 

Hreinsa skuli burt múr og ein­angr­un og end­ur­gera veggi þannig að tak­marka megi raka­skemmd­ir. Þá var frá­gang­ur á út­veggj­um sums staðar ekki tal­inn full­nægj­andi. 

Heil­brigðis­eft­ir­lit Suður­nesja gaf í kjöl­farið út eft­ir­lits­skýrslu, dag­sett 1. apríl 2022, þar sem fram kom að raka- og myglu­vanda­mál væru það út­breidd og um­fangs­mik­il að heilsu manna til að dvelja í hús­inu væri hætta búin.

Því væri ráðleg­ast að hætta rekstri og ráðast strax í úr­bæt­ur með hliðsjón af skýrslu Eflu. 

End­urþéttu glugga

Húsið er, sem áður seg­ir, í eigu Lunds fjár­fest­inga­fé­lags, sem stend­ur nú að rekstri hót­els Geó að form­inu til, en Grét­ar seg­ir aðra rekstr­araðila sinna rekstr­in­um. Hann kýs þó að gefa ekki upp nöfn viðkom­andi.

„Það er búið að skipta um gól­f­efni og mála og gera við alla glugga. Það þurfti ekki að skipta þeim út held­ur bara að end­urþétta. Það lak með glugg­um í vet­ur enda vit­laust veður en það er ekk­ert að þak­inu,“ seg­ir Grét­ar í sam­tali við mbl.is.

Þær viðgerðir sem ráðast þurfti í áður en hót­elið opnaði aft­ur voru leyst­ar af hendi á ein­um mánuði án vand­kvæða, að sögn Grét­ars.

Hann seg­ir að fengn­ir hafi verið verk­tak­ar og verk­fræðing­ar í verkið, en tel­ur ekki koma mál­inu við hvaða verk­tak­ar það voru. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert