This is a modal window.
Beginning of dialog window. Escape will cancel and close the window.
End of dialog window.
Brynja Hjálmsdóttir vakti talsverða athygli fyrir fyrstu ljóðabók sína, Okfrumuna, sem kom út fyrir þremur árum. Fyrir hana hlaut Brynja tilnefningu til Fjöruverðlaunanna og Rauðu hrafnsfjaðrarinnar, auk þess sem hún var valin ljóðabók ársins af starfsfólki bókabúða. Næsta ljóðabók Brynju bar Kona lítur við, kom út á síðasta ári og var meðal annars tilnefnd til ljóðaverðlauna Maístjörnunnar. Brynja hlaut einnig Ljóðstaf Jóns úr Vör árið 2022 fyrir ljóðið Þegar dagar aldrei dagar aldrei.
Í vikunni kom svo bókin Ókyrrð, gamanleikur sem gerist í flugvél á tímum heimsfaraldurs og hverfist um fjórar persónur sem allar stefna í ólíkar áttir. Kemur kannski ekki á óvart að skáld skrifi um atburði í heimsfaraldri, en svo vill til að Brynja skrifaði leikritið fyrir fimm árum, svo hennar nýjasta verk, er í senn hennar elsta verk.
Ókyrrð er gefinn út í takmörkuðu upplagi, aðeins í 300 númeruðum og árituðum eintökum og verður ekki endurprentað, að því kemur fram á vefsetri útgáfunnar. Brynja segir að útgefandi hennar hafi stungið upp á því að gefa leikritið út, hafði vitað af því að hún ætti það niðri í skúffu, en það varð til sem lokaverkefni í ritlistarnámi.
„Ég hélt bara að ég gæti skrifað leikrit og það yrði bara strax sett upp, en það gerðist náttúrlega ekki,“ segir Brynja, kímir og bætir við að hún hafi verið æðrulaus gagnvart verkinu því það sé engin skylda að birta lokaverkefni í skóla. „Ég var því líka búin að kveðja það smá, en finnst skemmtilegt að það komi aftur upp á yfirborðið.“
Eins og getið er gerist leikritið í miðjum heimsfaraldri, „meðan allur heimurinn er veikur heima með fuglaflensuna“, eins og Svanhildur segir við Svanhvíti dóttur sína snemma í verkinu. Brynja segist ekki vera spákona, og í raun hafi fuglaflensufaraldur bara verið leið til að útskýra það að það eru bara tveir farþegar í flugvélinni, og svo flugstjóri og -þerna — „þetta var mín tilraun til að gera absúrdleikrit“.
Brynja segist vera með fleiri hugmyndir að leikritum þó hún sjái ekki fyrir sér hvenær þær fai að komast á blað. „Mér finnst rosalega skemmtilegt að skrifa leiktexta og finnst það að skrifa leiktexta standa nær því að skrifa ljóð en að skrifa frásagnarprósa. Hvert augnablik og hver lína verða að vera hlaðin, dálítið eins og ljóði, og maðru þarf að alltaf að kjarna rosalega mikið, eins og fræg lína Tsjekovs, eiginkona er eiginkona. Þegar maður er búinn að skrifa og skrifa og skrifa þá stendur kannski bare eitthvað svona einfalt og þrungið eftir. Þetta er skemmtileg vinna og ég væri alveg til í að gera meira af henni.“
Brynja segir frá verkinu og rithöfundarferli sínum í viðtalsþættinum Dagmálum í dag.