Tjaldsvæðin að fyllast á Suðurlandi

Tjaldsvæðið í Þrastalundi opnaði formlega um helgina.
Tjaldsvæðið í Þrastalundi opnaði formlega um helgina. Ljósmynd/Tjaldsvæðið Þrastalundi

Lands­menn flykkj­ast nú í úti­leg­ur víða um land og stefna marg­ir á Suður­landið þar sem veður­fræðing­ar hafa spáð allt að 20 stiga hita um helg­ina. 

Tjaldsvæðið í Þrasta­lundi, sem opnaði form­lega um helg­ina eft­ir að hafa verið nokk­ur ár í dvala, er nú nán­ast fullt. Að sögn Sverr­is Ein­ars Ei­ríks­son­ar tjald­varðar hef­ur verið gríðarlega mikið að gera en tjaldsvæðið tek­ur ein­ung­is um hundrað gesti til að byrja með.

Hann seg­ir ferðalanga geta mætt á staðinn til að at­huga með stæði en einnig sé vin­sælt að bóka þau á net­inu. Hef­ur sú aðferð reynst afar þægi­leg.

Síðar í sum­ar verða fleiri hólf opnuð og ætti þá að vera mögu­legt að taka á móti allt að tvö­falt fleiri gest­um.

Lítið vesen

Svipaða sögu er að segja af tjaldsvæðinu á Flúðum þar sem pláss­in fara að vera af skorn­um skammti. Katrín Ósk Sveins­dótt­ir, sem fer með um­sjón með tjaldsvæðinu, kveðst ekki vera með tölu yfir hversu marg­ir séu komn­ir en seg­ir fólk hafa byrjað að streyma að um há­degi í gær og fram á kvöld. Þá býst hún við að enn fleiri komi í dag.

Flest­ir gest­irn­ir eru ís­lenskt fjöl­skyldu­fólk en þó er eitt­hvað um er­lenda ferðamenn inn á milli.

Að sögn Katrín­ar Óskar hef­ur lítið verið um vand­ræði og vesen og allt gengið smurt fyr­ir sig. Þegar blaðamaður náði tali af henni um há­degi var 17 stiga hiti á svæðinu

Mikið að gera all­ar helg­ar

Víðir Jó­hanns­son, eig­andi Hell­is­hóla sem einnig er þekkt­ur und­ir viður­nefn­inu Hell­is­hólatröllið, er einnig gríðarlega ánægður með hvernig sum­arið og helg­in hef­ur farið af stað. „Það komu mjög marg­ir í gær og það streym­ir enn þá fólk,“ seg­ir hann í sam­tali við mbl.is.

„Það er yf­ir­leitt bara mikið að gera hjá okk­ur all­ar helg­ar.“

Nóg pláss er á tjaldsvæðinu á Hellishólum en hátt í …
Nóg pláss er á tjaldsvæðinu á Hell­is­hól­um en hátt í 600 manns eru með gist­ingu á svæðinu. Ljós­mynd/​Aðsend

Að sögn Víðis hef­ur veðrið leikið við Fljóts­hlíðinga og ferðamenn sem hafa meðal ann­ars nýtt blíðuna í golf og aðra úti­vist.

Hann ger­ir ráð fyr­ir að nú séu allt að 600 manns á svæðinu sam­an­lagt. Hót­elið og bú­staðir á Hell­is­hól­um eru nú full­bókuð en tjaldsvæðið er víðfeðmt og því enn pláss fyr­ir ferðalanga sem kæra sig um úti­legu í Fljóts­hlíð.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert