Landsmenn flykkjast nú í útilegur víða um land og stefna margir á Suðurlandið þar sem veðurfræðingar hafa spáð allt að 20 stiga hita um helgina.
Tjaldsvæðið í Þrastalundi, sem opnaði formlega um helgina eftir að hafa verið nokkur ár í dvala, er nú nánast fullt. Að sögn Sverris Einars Eiríkssonar tjaldvarðar hefur verið gríðarlega mikið að gera en tjaldsvæðið tekur einungis um hundrað gesti til að byrja með.
Hann segir ferðalanga geta mætt á staðinn til að athuga með stæði en einnig sé vinsælt að bóka þau á netinu. Hefur sú aðferð reynst afar þægileg.
Síðar í sumar verða fleiri hólf opnuð og ætti þá að vera mögulegt að taka á móti allt að tvöfalt fleiri gestum.
Svipaða sögu er að segja af tjaldsvæðinu á Flúðum þar sem plássin fara að vera af skornum skammti. Katrín Ósk Sveinsdóttir, sem fer með umsjón með tjaldsvæðinu, kveðst ekki vera með tölu yfir hversu margir séu komnir en segir fólk hafa byrjað að streyma að um hádegi í gær og fram á kvöld. Þá býst hún við að enn fleiri komi í dag.
Flestir gestirnir eru íslenskt fjölskyldufólk en þó er eitthvað um erlenda ferðamenn inn á milli.
Að sögn Katrínar Óskar hefur lítið verið um vandræði og vesen og allt gengið smurt fyrir sig. Þegar blaðamaður náði tali af henni um hádegi var 17 stiga hiti á svæðinu
Víðir Jóhannsson, eigandi Hellishóla sem einnig er þekktur undir viðurnefninu Hellishólatröllið, er einnig gríðarlega ánægður með hvernig sumarið og helgin hefur farið af stað. „Það komu mjög margir í gær og það streymir enn þá fólk,“ segir hann í samtali við mbl.is.
„Það er yfirleitt bara mikið að gera hjá okkur allar helgar.“
Að sögn Víðis hefur veðrið leikið við Fljótshlíðinga og ferðamenn sem hafa meðal annars nýtt blíðuna í golf og aðra útivist.
Hann gerir ráð fyrir að nú séu allt að 600 manns á svæðinu samanlagt. Hótelið og bústaðir á Hellishólum eru nú fullbókuð en tjaldsvæðið er víðfeðmt og því enn pláss fyrir ferðalanga sem kæra sig um útilegu í Fljótshlíð.