Upplifði ekki sorg

Valgeir Guðjónsson og Ásta Kristrún Ragnarsdóttir eru samrýnd hjón. Ásta …
Valgeir Guðjónsson og Ásta Kristrún Ragnarsdóttir eru samrýnd hjón. Ásta stóð þétt við bakið á manni sínum í gegnum erfið veikindi en Valgeir barðist við krabbamein sem komið var í eitla og merg. mbl.is/Kristinn Magnússon

Tónlistarmaðurinn og Stuðmaðurinn góðkunni, Valgeir Guðjónsson, og kona hans Ásta Kristrún Ragnarsdóttir, námsráðgjafi og rithöfundur, starfrækja menningarhús fjölskyldunnar, Bakkastofu, á Eyrarbakka.  

Blaðamaður hitti fyrir hjónin sem eru í óða önn að æfa fyrir stórtónleika sína sem haldnir verða á sjálfan þjóðhátíðardaginn í Skálholti. Þau gáfu sér þó tíma til að spjalla í lítilli íbúð í miðbæ Reykjavíkur, þar sem þau eiga nú afdrep. Yfir kaffibolla og Prins Póló leiða þau blaðamann í allan sannleikann um fyrirhugaða tónleika og af hverju það hafi verið mikilvægt að láta af þeim verða núna. Valgeir, sem varð sjötugur í janúar, greindist með eitlakrabbamein fyrir ári og var í lyfjameðferð í sex mánuði. Hann er nú kominn fyrir vind.   

Gat brugðið til beggja vona

„Við höfum tekið á móti þúsundum gesta í Bakkastofudagskrá. Auðvitað stöðvaðist allt í Covid en nú erum við að spýta í lófana,“ segir Valgeir á meðan Ásta nær í kaffið.   

Valgeir og Ásta eru hér með samstarfsmanni þeirra, Sindra Mjölni …
Valgeir og Ásta eru hér með samstarfsmanni þeirra, Sindra Mjölni Magnússyni sem teiknar og semur sögur fyrir veglegt hefti sem gefið er út í tilefni tónleikanna í Skálholti. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Þú ert fyrsti gesturinn! Við vorum bara að bera inn húsgögnin í gær,“ segir Ásta og sest hjá okkur í litlu stofunni og þau segja frá vinnu sinni og fyrirhuguðum tónleikum.   

„Efnið sækir Valgeir í Íslendingasögurnar og goðafræðina en til að mæta þeim mikla áhuga, sem er útbreiddur um víkingatímann og menningu eða ómenningu þessa tímabils, semur hann alla söngtexta á ensku. Á tónleikunum þann 17. júní verða flutt fimmtán lög úr þessum viðamikla bálki. Þessi lög mynda söguþráð með upphafi og enda. Á undan hverju lagi er sá hluti sögunnar sagður, sem tengist laginu sem á eftir kemur. Því má segja að um heildstætt verk sé að ræða. Því gerum við skil í veglegri tónleikaskrá, sem jafnframt hefur að geyma meistaralega vel gerðar teikningar. Ungur sunnlenskur listamaður, Sindri Mjölnir, sem er menntaður í kvikmyndagerð í Bandaríkjunum, vann söguþráðinn í kringum lögin og teiknaði myndirnar,“ segir Valgeir en þess má geta að miða má nálgast bæði á tix.is og eins við innganginn.   

„Bókin er algjört listaverk, bæði myndræn og söguleg,“ segir Ásta og bætir við:

„Þetta eru hátíðartónleikarnir „Valgeir sjö-tugur“. Þessir tónleikar eru hugsaðir fyrir Íslendinga og því hef ég gert útdrætti úr sögunum á íslensku sem ég flyt og þannig blandast þessi tvö tungumál fallega saman. Hugmyndin að veglegum Saga Musica-tónleikum vaknaði þegar Valgeir varð svona veikur. Við tókum þessa stefnu þegar við gerðum okkur grein fyrir að það gat brugðið til beggja vona.“

Þetta er banvænn sjúkdómur

Valgeir, geturðu sagt mér frá þessum veikindum?

„Ég var búinn að vera svolítið skrítinn og svo fann ég hnúð í náranum í fyrravor. Ég fór í bæinn og fór fyrst í sneiðmyndatöku og svo fleiri myndatökur og loks var ég skorinn til að taka sýni úr náranum til að greina þetta æxli,“ segir Valgeir.

„Þegar í ljós kom að meinið var illkynja var hann settur í jáeindaskannann og þá kom í ljós að krabbameinið hefði dreift sér í alla eitla og inn í merg. Þetta var mjög langt gengið þó hann hafi fundið lítið til,“ segir Ásta og segir greiningarferlið allt hafa tekið töluverðan tíma áður en meðferð hófst.

„Mér var ekki illt en ég var slappur og ég finn enn að ég er ekki alveg á fullu gasi. Áður en meðferðin hófst vorum við það lánsöm að samtal var strax á milli sérfræðinga á Landspítalanum og okkar mæta krabbameinslæknis hér á Suðurlandi,“ segir hann.

„Þetta er banvænn sjúkdómur og okkur var strax gert það ljóst. Framfarir í krabbameinslækningum hafa orðið miklar á undanförnum árum. Fræðsla um stöðuna og meðferðina sem binda má vonir við getur skipt sköpum fyrir þá sem í hluta eiga. Sigurðar Böðvarsson, krabbameinslæknir, veit hversu þýðingarmikið það er að sjúklingar og aðstandendur séu upplýstir og þannig virkir í ferlinu. Hann tók okkur í læri og fór með okkur í gegnum eðli eitlakrabbameins og þá lyfjameðferð sem er í boði. Tveimur meginúrræðum var beitt; líftæknilyfi sem ræðst beint á krabbameinsfrumurnar en samhliða breiðvirkandi lyfi sem ræðst á allar frumurnar,“ segir Ásta.

„Staða Valgeirs var sú að hann þurfti á kröftugri meðferð að halda og fékk því tvöfaldan skammt af breiðvirkandi lyfjameðferð. Við bárum mikið traust til læknanna. Við ákváðum að taka veikindunum með eins jákvæðu hugarfari og okkur var unnt og leyfðum okkur ekki að missa vonina. Við fengum svo þær fréttir nú um áramótin að hann væri sloppinn og var það besta áramótagjöfin,“ segir Ásta og segist hafa vafið mann sinn í bómull á meðan hann gekk í gegnum sex mánaða lyfjameðferð.   

Varstu hræddur um að deyja Valgeir?

„Nei, ég tók þann pól í hæðina að einhvern veginn myndi þetta allt ganga.“

Ef til vill hans svanasöngur

Þrátt fyrir erfiða tíma ákváðu hjónin, eins og fyrr segir, að leggja alla sína krafta í að halda þessa stórtónleika. Þau ákváðu strax að halda veikindinum fyrir sig.

„Verkefni okkar í Bakkastofu felast í nánd við gesti, að segja sögur, syngja og gleðja. Valli sagði strax að hann vildi ekki spila fyrir fólk á þessum forsendum, því þá færi athyglin af ánægjunni yfir í að finna til með krabbameinssjúklingi. Þess vegna ákváðum við að halda veikindunum innan litlu fjölskyldunnar; við nefndum veikindin ekki við systkini okkar, vini eða stórfjölskyldu,“ segir Ásta.

Hjónin hafa búið sér heimili á Eyrarbakka þar sem taka …
Hjónin hafa búið sér heimili á Eyrarbakka þar sem taka á móti gestum í Bakkastofu og skemmta með söng og sögum.

„Aðeins þegar leið á nýtt ár og við vissum að meðferðin hafði skilað góðum árangri, greindum við nákomnum frá þessu verkefni. Náin vinkona mín sagðist ekki efast um að þetta hefði verið kraftaverk, en hún þekkir vel til þessara mála,“ segir Ásta.

Hvenær vissuð þið að Valgeir væri kominn fyrir vind?

„Við fengum upphringingu rétt fyrir áramótin um að meðferðin hefði skilað góðum árangri og að eitlarnir væru nú hreinir,“ segir Valgeir og Ásta segir að auðvitað verði áfram fylgst með, til að ganga úr skugga um hvort meinið taki sig upp að nýju.

Hvernig áhrif höfðu veikindin á þig andlega?

„Ég er ekki jafn einbeittur og ég hef verið. Ég upplifði ekki sorg,“ segir Valgeir og segja þau að samstarfið um Saga Musica verkefnið við Sindra Mjölni hafi hjálpað við að styðja Valgeir í gegnum veikindin, að ógleymdum börnum þeirra.

Afar fallegar teikningar eru eftir Sindra en efniviðurinn er sóttur …
Afar fallegar teikningar eru eftir Sindra en efniviðurinn er sóttur í Íslendingasögur og goðafræðina.

„Við drógum þetta víkingaskip saman eins og við segjum. Valgeir var hundslappur og við vorum öll hræðilega góð við hann. Við vildum allt gera til þess að hann næði þessu markmiði sínu og að Saga Musica færi í loftið. Við lögðum mikinn metnað í að gera þetta vel og jafnvel að skapa eins konar minnisvarða um Valgeir.“  

Ásta segist hafa spurt mann sinn mikilvægrar spurningar í miðjum veikindum.

„Hann hefur gert svo ótal margt en ég spurði hann hverju honum fyndist hann eiga eftir að skila til íslensku þjóðarinnar,“ segir hún.

„Það var þetta verkefni, Saga Musica. Ég hef samið fjörutíu lög og texta og í Skálholti verða fimmtán þeirra flutt,“ segir Valgeir og viðurkennir að þetta hafi hann viljað klára ef svo hefði farið að hann lifði ekki krabbameinið af.

„Þetta hefði getað verið hans svanasöngur,“ segir Ásta og brosir.

„Það eru nokkrir svanir eftir,“ segir Valgeir en nefnir í framhaldinu að hann muni aldrei aftur stíga á stokk með Stuðmönnum.

Á víkingaskipi í tíu daga

Árið 1991 fór Valgeir í mikla ævintýraferð en hann fékk að sigla með Gaiu, langskipi sem byggt var að fyrirmynd víkingaskipa. Förin var farin frá Noregi til Íslands og þaðan til Grænlands, Bandaríkjanna og alla leið til Rio de Janeiro.

Valgeir var tíu daga á leiðinni, en víkingarnir nútímalegu lentu í óveðri sem tafði för.

„Ég fór um borð í Bergen og það voru 70-80 þúsund manns sem veifuðu á eftir skipinu. Á leiðinni kom mikið óveður, þannig að við þurftum að bíða í fjóra daga í höfn á Hjaltlandseyjum. Þaðan fór ég til Leirvíkur á Orkneyjum, en flaug þaðan heim og tók svo á móti skipinu 17. júní á Íslandi,“ segir hann og segist hafa farið í ferðina til að geta sett sig í spor víkinganna forðum daga.

Hann segir ferðina hafa verið mikla upplifun.

„Þegar við lentum í storminum vorum við dregnir í land en það sigldi alltaf með okkur annað skip til hliðar. Ég deildi svefnpoka með strák sem var þarna í bresku tökuliði, en hann var á vakt þegar ég svaf og öfugt. Ég mun aldrei gleyma því þegar ég lá þarna í svefnpokanum og heyrði mikið brak. Mér varð litið til hliðar og sá þá mastrið á skipinu alveg við hliðina á mér og það fór upp um sextán metra eða svo. Ég man ég hugsaði; ég get ekki sofnað hér. En svo steinsofnaði ég og vaknaði svo endurnærður,“ segir hann og hlær.

Ekki fundið helga steininn

Við förum að slá botninn í samtalið um lífið og listina, enda er nóg að gera hjá hjónunum.

Hvað tekur við eftir tónleikana?

„Lífið bara heldur áfram,“ segir Valgeir og Ásta grípur orðið.

Valgeir og Ásta halda ótrauð áfram að skemmta fólki eftir …
Valgeir og Ásta halda ótrauð áfram að skemmta fólki eftir erfiðan vetur. Valgeir barðist við krabba og hafði betur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við höldum auðvitað áfram með Bakkastofu og svo viljum við kanna möguleikann á því að taka lögin upp. Okkur dreymir um að tengja Saga Musica verkefnið við unga Íslendinga næsta vetur. Það gæti orðið kveikja ungs fólks, ýmist í skólum eða með foreldrum, að fá áhuga á Íslendingasögunum og goðafræðinni.“  

Valgeir, þú ert nýorðinn sjötugur og búinn að ganga í gegnum erfið veikindi. Ætlar þú ekkert að setjast í helgan stein?

„Nei, ég hef bara ekki fundið þann stein ennþá,“ segir hann og brosir breitt.

Ítarlegt viðtal er við hjónin Valgeir og Ástu í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins um helgina. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert