Nokkuð var um að snúast hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu í nótt vegna ölvunarástands og átaka.
Laust fyrir klukkan fjögur í nótt barst lögreglu tilkynning um líkamsárás í miðbænum. Stúlka var bitin í eyra af annarri stúlku og hlaut fyrir vikið skarð eftir atlöguna.
Þá voru einnig höfð afskipti af manni sem var til vandræða á veitingastað. Hann var sagður hafa verið með hótanir og að hann hefði verið með hníf. Maðurinn er grunaður um vörslu fíkniefna og voru bæði efnin og hnífurinn haldlögð.
Þá barst einnig tilkynning rétt fyrir klukkan sex í gær, um mann í annarlegu ástandi til vanræða í verslun sem var að hnupla. Starfsfólkið hafði tekið af honum vörur sem hann var búinn að setja innan klæða.
Honum var vísað út en kom aftur og hélt áfram að setja varning í vasa sína. Maðurinn yfirgaf síðar verslunina en lögregla handtók hann skömmu síðar. Var hann færður á lögreglustöð og vistaður í fangageymslu sökum ástands.