„Við erum að mótmæla aðgerðum rússneskra stjórnvalda sem fremja nú stríðsglæpi í nafni rússnesku þjóðarinnar,“ segir Andrei Menshenin, rússneskur nemi í Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.
Andrei er einn af skipuleggjendum mótmæla sem fóru fram fyrir framan rússneska sendiráðið á Túngötu í dag.
„Tólfta júní hvert ár er sjálfstæði Rússlands fagnað. Mótmælin í dag voru vegna þess að þjóðin er ekki sjálfstæð. Þjóðinni er stjórnað af hópi glæpamanna og Vladimír Pútín fer þar fremstur í flokki. Hann tekur allt Rússland og gerir það sem hann vill án þess að fylgja neinum mannréttindalögum.“
Þetta eru ekki í fyrsta sinn sem Andrei mótmælir rússneskum stjórnvöldum á Íslandi, en hann var meðal þeirra sem mótmælti fangelsisvist Alexeis Navalnís í fyrra. Í mars setti Pútín lög sem heimilar allt að 15 ára fangelsisvist fyrir rússneska ríkisborgara sem mótmæla stjórnvöldum þar í landi.
„Það sem ég hef nú þegar sagt hér á Íslandi þýðir að ef ég fer aftur til Rússlands þá þyrfti ég að fara í fangelsi,“ segir Andrei.
Andrei hefur búið á Íslandi í sex ár og stefnir nú í að honum verði vísað úr landi. Hann er nemi í Háskóla Íslands og lærir þar alþjóðasamskipti.
„Í nóvember þá rennur vegabréfið mitt út og ég get ekki sótt um landvistarleyfi á Íslandi nema ég sé með gilt vegabréf.“
Andrei segir ekki öruggt fyrir sig að fara til Rússlands og sótti hann því um vegabréf hjá rússneska sendiráðinu. Það er ekki enn komið, þremur mánuðum seinna.
Hann sótti því um íslenskt vegabréf í maí og bíður nú eftir svari. Hann segir að ef honum verði neitað gæti hann þurft að sækja hér um hæli, sem getur tekið ár að vinna úr. Á þeim tíma yrði honum meinað að vinna. Þá myndi hann missa vinnuna sína, og síðan íbúðina sem hann leigir, að sögn Andreis.