Foreldrar langveikra barna hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem þau fordæma að forræðismál „séu látin spilast út innan veggja spítalans.“
Yfirlýsingin er send í kjölfar forsjármáls tíu ára drengs en fulltrúi sýslumanns vísaði móður drengsins út af deild Barnaspítala Hringsins þar sem drengurinn var í lyfjagjöf. Nýverið var úrskurðað að lögheimili barnsins skyldi vera hjá föður þess en drengurinn hafði áður verið hjá móður sinni.
Í yfirlýsingu foreldranna er vísað til þess að lögfræðingi föðurins, starfsmanni sýslumanns og starfsmanni barnaverndar var leyft að standa fyrir utan herbergi barnsins í sjö klukkustundir „á meðan fréttamiðlar kepptust um að bera fregnir af málinu“.
„Án þess að fara nokkuð út í hver forsaga málsins er, þá er það óafsakanlegt að hlutir sem þessir fáir að fara fram innan veggja spítalans.“
Í yfirlýsingunni, sem 38 foreldrar skrifa undir, segir að langveik börn hafi orðið fyrir gríðarlegum áföllum innan veggja spítalans sem eru óhjákvæmileg og því sé mikilvægt að þau upplifi sig örugg þar.
„Það er engum bjóðandi hvorki barninu, fylgdarmanni, starfsfólki spítalans eða öðrum börnum sem þangað sækja þjónustu að athafnir sem þessar séu framkvæmdar innan veggja spítalans. Við fordæmum einnig að stjórn spítalans hafi ekki stigið inn í og vísað þessu út fyrir veggi spítalans.“
Yfirlýsinguna í heild sinni má lesa hér.