Ný Jökulsárbrú senn í notkun

Nýja brúin er uppsteypt og senn tilbúin. Á meðan er …
Nýja brúin er uppsteypt og senn tilbúin. Á meðan er ekið yfir bráðabirgðabrú sem hér sést til hægri. mbl.is/Sigurður Bogi

Uppsteypu er lokið og vegtenging komin að nýrri brú yfir Jökulsá á Sólheimasandi í Mýrdal, sem Vegagerðin ætlar að opna í haust. Til úrlausnar nú er að lagfæra steypta kanta sem halda munu uppi handriði brúarinnar.

Í ljós hefur komið að ekki var fyllt út í öll rúm í mótum þegar kantarnir voru steyptir og því þarf að bæta úr nú. Slíkar endurbætur munu þó ekki tefja að mannvirkið komist í gagnið, því í stórum verkefnum sem þessum má alltaf búast við óvæntum frávikum sem tafir kunna að fylgja, segir Óskar Örn Jónsson, framkvæmdastjóri framkvæmdasviðs Vegagerðarinnar.

Jökulsá á Sólheimasandi er stundum nefnd Fúlilækur sakir stækrar hveralyktar sem aðrir kalla jöklafýlu, sem gjarnan er á þessum slóðum. Þá ræður að í loftinu er brennisteinslykt frá bráðnun jökulsins sem þarna er skammt frá. Eðli jökuláa samkvæmt er rennslið síbreytilegt og margt getur gerst.

Brúin nýja er hönnuð samkvæmt þessum veruleika, en hún er 163 metra löng, tvíbreið, steinsteypt, eftirspennt bitabrú sem smiðir ÞG-verktaka byggðu. Sem sakir standa fer umferðin á hringveginum þarna nú um bráðabirgðabrú sem verður tekin ofan þegar varanlegt mannvirki er komið í gagnið.

Óskar Örn leggur áherslu á að brýr séu í eðli sínu flókin mannvirki og margt þurfi að hafa í huga við hönnun þeirra.

„Hjá Vegagerðinni er gangurinn við brúarsmíði gjarnan sá að við tökum sumarið í lokafrágang, göngum frá umhverfi og öryggisatriðum. Þannig er þetta nú á Sólheimasandi,“ segir Óskar Örn.

Nánari umfjöllun er að finna í Morgunblaðinu sem kom út 11. júní.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka