Listamaðurinn Bjartmar Guðlaugsson verður sjötugur 13. júní þótt einhverjir eigi eflaust erfitt með að sjá fyrir sér að þessi síðhærði töffari frá Fáskrúðsfirði sé kominn á svo virðulegan aldur. Freistandi er að nota orðalagið: þannig týnist tíminn.
Bjartmar segist sjaldan hafa gert mikið úr eigin afmælisdögum en nú stendur mikið til því Bjartmar og Bergrisarnir halda tónleika í Háskólabíói hinn 18. júní. Auk þess mun Bjartmar senda frá sér nýtt lag á afmælisdaginn.
„Dóttir mín hún Elma Björk hefur staðið á bak við þessa tónleika í einu og öllu. Ég vildi nú ekki hafa svona vesen í gangi. Hún er viðskipta- og markaðsfræðingur og horfði bara ákveðið á mig og sagði: „Pabbi, þú ert vörumerki“! Ég fór þá að pæla í hvort ekki væri svolítið til í því hjá henni og ég hlýði,“ segir Bjartmar sposkur en hann bauð blaðamanni heim til sín í kaffi í vikunni. Þegar þetta er skrifað eru fáir miðar á tónleikana á lausu en lagt er upp með að fara yfir ferilinn ásamt því að flytja ný lög. Spurður um hvort tónlistarunnendur muni ekki fá fleiri tækifæri til að sjá Bjartmar og Bergrisana spila segir hann að svo verði. Til standi að spila á Goslokahátíðinni í Vestmannaeyjum sem dæmi og tónleikar séu fyrirhugaðir í haust.
„Við strákarnir í Bergrisunum ákváðum að halda áfram sem frá var horfið og búa til tónlist. Við gerðum plötuna Skrítin veröld árið 2010 og hún fékk alveg gífurlega góðar móttökur. Við fengum góða dóma og fengum verðlaun á íslensku tónlistarverðlaununum. Okkur fannst bara ekki forsvaranlegt að hætta þessu og ákváðum því að byrja aftur. Við erum búnir að koma út þremur nýjum lögum og fjórða lagið kemur á afmælisdaginn minn 13. júní. Við erum að safna í plötu en nútíminn gefur okkur möguleika á því að gefa út eitt lag í einu og það er mjög flott. Ég læt strákana að mestu um spileríið en ég syng og spila á kassagítarinn annað veifið. Birkir Rafn Gíslason og Júlíus Guðmundsson stofnuðu Bergrisana með mér árið 2010. Við höfum verið með bestu hljóðfæraleikarana með okkur og Arnar Gíslason og Daði Birgisson verða til dæmis með okkur 18. júní. Allt eru þetta súper hljóðfæraleikarar. Ég fór víst ekki í tónlistarnám en að vinna með öllum bestum tónlistarmönnum landsins í áratugi er svo sannarlega háskólanám fyrir mig.“
Finnur Bjartmar ennþá fyrir leikgleði eftir öll þessi ár í tónlistinni? „Já já. Það hefur aldrei verið skemmtilegra að semja tónlist heldur en núna og ég er með margar hugmyndir sem ég er að vinna úr. Ég hef áttað mig á því á efri árum hve gæfusamur ég hef verið að eiga möguleika á því að mála og semja lög. Ég er þakklátur fyrir það en það ber að fara vel með það og passa sig á því að drekkja því ekki í hroka eða sjálfumgleði. Það bitnar á listinni og manni sjálfum,“ segir Bjartmar enda er eflaust auðvelt að missa jarðtenginguna þegar menn njóta velgengni í tónlistarbransanum. „Já og við erum nú bara hérna á Íslandi og þekkjum hvert annað. Þú þarft ekkert að fá þér leyninúmer þótt þú sért beðinn um að vera á selfie í Bónus. Það er alveg á hreinu.“
Ekki er annað að heyra á Bjartmari en að hann hafi næga orku til listsköpunar því hann segist sinna myndlistinni svo gott sem á degi hverjum auk þess sem lög og textar virðast einnig renna frá honum. Bjartmar skilgreinir sig ekki annað hvort sem tónlistarmann eða myndlistarmann.
„Nei þetta er bara einn pakki og ég vinn í þessu samhliða. Ég get verið að vinna í málverkinu en ráfa svo um og skrifa eitthvað. Því næst gríp ég kannski í gítarinn. Heimilið er vinnustofa og hefur alltaf verið hjá okkur. Ég ráfa svona á milli listgreina hérna innanhúss. Það má alveg segja það en þetta truflar ekkert hvort annað,“ segir Bjartmar en eiginkona hans heitir María Helena Haraldsdóttir.
„Hún er með mér í þessu öllu. Við byrjuðum saman 1983 og á næsta ári eru því fjörtíu ár síðan. Við gengum í hjónaband tveimur árum seinna. Tveir einstaklingar á svipuðu róli með svipaðar hugmyndir og svipaðar skoðanir á ástinni, lífinu og öllu. Við höfum alltaf staðið saman í öllum stórum ákvörðunum sem við höfum tekið. Hún er tónlistarkona og hefur sungið á plötunum mínum.“
Ítarlegt viðtal við Bjartmar er að finna í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins þar sem meðal annars er rætt um eitt og annað á tónlistarferlinum.