Sleppa blikkljósum og skoða lokun

Tillögur að bættu öryggi við Reynisfjöru komu aldrei til framkvæmda, …
Tillögur að bættu öryggi við Reynisfjöru komu aldrei til framkvæmda, þar sem um er að ræða land í einkaeigu. Nú er verið að skoða lokunarheimildir á svæðinu. mbl.is/Jónas Erlendsson

Mögulegt er að Reynisfjöru verði lokað á hættutímum, þar sem lagaleg heimild er fyrir slíku. Þessu komst starfshópur ferðamálaráðherra að, að sögn Skarphéðins Berg Steinarssonar ferðamálastjóra.

Landið er ekki í eigu ríkisins heldur nokkurs fjölda landeigenda – hluti þeirra mótmælti öryggisráðstöfunum á borð við viðvörunarfána og blikkljós og komu þær því aldrei til framkvæmda.

Er sem sagt lagaheimild fyrir lokun svæðisins en ekki fyrir frekari öryggisráðstöfunum?

„Það voru tillögur fyrir slíkan búnað en hluti landeigenda vildi ekki setja slíkt upp,“ segir Skarphéðinn. Á sama tíma hafa aðrir landeigendur svæðisins beitt sér fyrir auknu öryggi.

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri.
Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri. mbl.is/Eggert

Öryggistillögur strönduðu á mótmælum

Fallið hefur verið frá öryggistillögum á borð við blikkljós og viðvörunarfána sem myndi gefa ljósmerki þegar mest brimar í Reynisfjöru, þar sem þær strönduðu á andstöðu nokkurra landeigenda svæðisins, að því er mbl.is greindi frá í haust í fyrra. Þá hafði ferðamaður nýlega látið lífið í Reynisfjöru. 

Komi til lokunar svæðisins segir Skarphéðinn að taka verði tillit til ýmissa þátta, til að mynda hvenær brimið er mest, hvenær sé málefnalegt að loka stöðum og hvort heimildin nái til fleiri staða á Íslandi sem reynst hafa hættulegir. 

„Lagaheimildir virðast vera til staðar, sem er hægt að grípa til, en þá er spurningin við hvaða kringumstæður? Eru mælingar sem liggja fyrir um hættuna? Lögreglan getur geti gripið til lokana, hún gerði það til dæmis í Fagradalsfjalli. En varðandi Reynisfjöru, þá verður að liggja fyrir við hvaða aðstæður,“ segir hann.

Starfshópur ferðamálaráðherra skoðar enn lokunarheimildir og er niðurstöðu hans að vænta fyrir sumarleyfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert