Tæplega tvöföld eftirspurn í hlutafjárútboði Nova

Til að mæta áhuga fjárfesta hafa seljendur ákveðið að stækka …
Til að mæta áhuga fjárfesta hafa seljendur ákveðið að stækka útboðið. Ljósmynd/Aðsend

Almennu hlutafjárútboði Nova Klúbbsins hf. lauk á föstudag og bárust rúmlega 5.000 áskriftir að andvirði um 12 milljarða króna. Samsvarar það tæplega tvöfaldri eftirspurn ef miðað er við grunnstærð útboðsins en tæplega þreföld eftirspurn var eftir þeim hlutum sem boðnir voru í áskriftarbók A.

Eftirspurn var eftir ríflega öllum hlutum sem boðnir voru í áskriftarbók B og nam endanlegt útboðsgengi í báðum áskriftarbókum 5,11 krónum á hlut.

Til að mæta áhuga fjárfesta hafa seljendur ákveðið að stækka útboðið sem nemur um 20% í þágu áskriftarbókar A.

Heildarfjöldi hluta sem seldir voru í útboðinu námu alls 1.700.127.639 og heildarandvirði seldra hluta nam tæplega 8,7 milljörðum króna.

„Við erum hæstánægð að fá að bjóða velkomna um 5.000 manns til að taka þátt í að stuðla að áframhaldandi uppbyggingu stærsta skemmtistaðar í heimi. Þá er sérstaklega ánægjulegt að sjá þátttöku núverandi viðskiptavina en um 1.500 þeirra tóku þátt í útboðinu. Nú tekur við næsti kafli í sögu Nova sem skráð félag og erum við spennt að hringja bjöllunni þann 21. júní næstkomandi,“ er haft eftir Margréti Tryggvadóttur, forstjóra Nova Klúbbsins, í tilkynningu.

Verður fjárfestum tilkynnt um úthlutanir í útboðinu eigi síðar en fyrir lok dags á morgun, mánudag. Gjalddagi áskriftarloforða fjárfesta er 16. júní og er áætlað að afhending hinna nýju hluta til fjárfesta fari fram 20. júní.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka