Guðrún Svanborg Hauksdóttir, yfirlæknir sýkla- og veirufræðideildar Landspítalans, segir í samtali við Morgunblaðið að niðurstöðu úr greiningu tveggja manna sem taldir eru hafa smitast af apabólu megi vænta í vikunni frá útlöndum en greiningartæki hér á landi hafi sagt til um ættkvíslina, þ.e. að um orthopox-veiru sé að ræða, sem og að PCR-próf hafi bent eindregið til þess að mennirnir hafi smitast af apabóluveiru.
„Við teljum þetta vera apabólu en af því að þetta er allt svo nýtt þá viljum við vera fullviss og þá er náttúrulega eina vitið að vera öruggur til að byrja með. Ef þetta reynist vera rétt þá er maður aðeins öruggari næst. Við erum með greiningartæki sem segir ættkvíslina og svo erum við með PCR sem benti eindregið til að þetta væri apabóla,“ segir hún. Guðrún segir að um 90% líkur séu á að mennirnir hafi smitast af apabólu.
Aðspurð segist hún ekki búast við að veiran smitist innanlands á milli fólks. „Það er mjög ólíklegt að mennirnir hafi smitað út frá sér því að nú passa sig allir. Það er miklu líklegra ef það greinast fleiri smit að það hafi verið einhver sem hafi verið í útlöndum og smitast þar. Það er ólíklegt að þetta fari að smitast eitthvað innanlands á milli fólks. Það er líklegt að þetta deyi út hægt og rólega,“ segir hún.
Apabóluveira er orthopox-veira og er náskyld bólusóttarveiru. Að sögn Guðrúnar er meðgöngutími veirunnar um 2 vikur, þ.e. frá því að fólk smitast af henni og þar til einkenna verður vart, og fyrstu einkennin geta verið hiti, slappleiki og eitlastækkanir. 2-3 dögum eftir að einkenna verður vart koma fram útbrot sem eru fyrst flöt en síðan myndast bólur og loks blöðrur sem eru vökvafylltar.
Smitleiðir eru snertismit við náið samneyti og dropasmit, en Guðrún segir líkurnar á að smitast með síðarnefndu smitleiðinni vera litlar. „Í svona einn til tvo daga er fræðilegur möguleiki á að hægt sé að smitast af öndunarfærum viðkomandi, en þá eru þetta dropasmit. Þá ertu með stórar agnir sem detta fljótt til jarðar, þannig að maður þarf að vera mjög nálægt viðkomandi og lengi til að geta smitast. En það er mjög ólíklegt að smitast af dropasmiti,“ segir hún.
Hins vegar eru snertismit mjög smitandi. „Miklu líklegra er að smitast af bólunum, sérstaklega þegar það er kominn vessi í þær, en þessi vessi er svakalega smitandi. Hann kemst ekki í gegnum heila húð en það geta verið litlar rifur í húðinni sem vessinn getur komist í gegnum. Fyrst og fremst smitast maður af snertingu við húð,“ segir hún og bætir við að veiran getur auk þess borist með fatnaði, rúmfötum og handklæðum yfir í fólk.
Aðspurð segir hún að veiran smitist aðallega við náið samneyti þar sem viðkomandi kemst í snertingu við smitaða húð. Líkurnar á að smitast við kynmök eru miklar en smit eru ekki einvörðungu einskorðuð við slíkar athafnir.
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.