Blóðgjafir samkynhneigðra verði heimilar

Gert er ráð fyrir að heimila mönnnum sem stunda kynlíf …
Gert er ráð fyrir að heimila mönnnum sem stunda kynlíf með mönnum að gefa blóð í nýrri aðgerðaáætlun. Ljósmynd/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Tillaga forsætisráðherra til þingsályktunar um aðgerðaráætlun í málefnum hinsegin fólks næstu þrjú árin var samþykkt í þingsal í dag. 

Aðgerðaráætlunin er í nítján liðum og fjallar einn þeirra um reglugerð um blóðgjafir þar sem gert er ráð fyrir að reglugerð um söfnun, meðferð, varðveislu og dreifingu blóðs verði breytt svo að mismunun gagnvart samkynhneigðum þegar kemur að blóðgjöf verði afnumin. 

Samkvæmt áætluninni verður breytingin gerð í ár eða á næsta ári. Þá samrýmist áætlunin heimsmarkmiðum 5.6 g 3.8.

Frá þingsal Alþingis.
Frá þingsal Alþingis. mbl.is/Kristinn Magnússon

Samkynhneigðum karlmönnum hefur ekki verið heimilt að gefa blóð á grundvelli reglugerðar þar sem gert er ráð fyrir frávísun gjafa blóðeininga frá fólki „sem vegna kynhegðunar sinnar er mjög hætt við að fá alvarlega smitsjúkdóma sem geta borist með blóði.“

Aðgerðaráætlunin var samþykkt með öllum greiddum atkvæðum, en níu voru fjarverandi og einn skráður með fjarvist. 

Þingmenn Miðflokksins greiddu ekki atkvæði þrátt fyrir að hafa verið í þingsal skömmu áður en Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hélt ræðu í atkvæðaskýringu í næsta máli. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert