Skólaslit Menntaskólans í Kópavogi voru 28. maí. Frá skólanum útskrifuðust 49 stúdentar og 36 iðnnemar í bakstri, matreiðslu og framreiðslu ásamt því að 31 nemandi lauk iðnmeistararéttindum. Dúx skólans í bóknámi var að þessu sinni Ágúst Ingi Davíðsson, sem hlaut 9,19 í meðaleinkunn.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Menntaskólanum í Kópavogi.
Ágúst Ingi var nýnemi í fyrsta árganginum sem hóf nám á Afrekssviði MK. Hann hefur stundað fimleika frá fjögurra ára aldri og sinnt bæði íþróttum sem námi með prýði. Hann hefur keppt fyrir Íslands hönd í drengja- og unglingaflokki á Norðurlandamótum og Evrópumótum sem og öðrum erlendum mótum. Móðir hans tók við viðurkenningum fyrir hans hönd þar sem Ágúst var þá einmitt staddur á móti, að því er skólinn greinir frá.
Roman Chudov fékk sérstaka viðurkenningu fyrir eftirtektarverðan árangur, þar sem hann hefur búið á Íslandi í sjö ár og hefur íslensku ekki sem móðurmál en kláraði alla stærðfræðiáfanga skólans með 10 í meðaleinkunn. Einnig kláraði hann námið á þremur árum með 40 viðbótareiningar.
Petra Sif Lárudóttir hlaut viðurkenningu fyrir hæstu meðaleinkunn á verknámsprófi en hún er útskrifuð úr framreiðslu.