Fá ekki að kjósa um netverslunarfrumvarpið

Hildur Sverrisdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins.
Hildur Sverrisdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Magnússon

Frumvarpið um að heimila netverslun áfengis, sem Hildur Sverrisdóttir, þingkona Sjálfstæðisflokksins, lagði fyrir Alþingi í mars, mun ekki ná fram að ganga fyrir þinglok. Þetta staðfestir Hildur í samtali við mbl.is. 

Samkvæmt heimildum mbl.is var tekin ákvörðun um að málið yrði lagt til hliðar, þegar stjórnarflokkarnir sömdu um þinglok, þrátt fyrir að það hafi verið búið að semja um að það fengi að fara fyrir þingið, en ekki er samstaða um frumvarpið innan stjórnarmeirihlutans.

„Mér þykir ekki við hæfi að fara í smáatriði um samningaviðræður þingloka en það er ekkert launungamál að Sjálfstæðisflokkurinn er sá flokkur í stjórnarsamstarfinu sem er hvað mest áfram um það að vilja sveigjanlegri ramma utan um áfengislöggjöfina eins og í frelsismálum almennt.“

Kom eilítið á óvart

Málið hafði farið í gegnum fyrstu umræðu á Alþingi og komið mjög langt í nefndarvinnu, að sögn Hildar. En það mun vera í fyrsta skipti í áratugi sem áfengisfrumvarp kemst svo langt á þinginu. 

Hildur viðurkennir að það hafi komið sér eilítið á óvart að frumvarpið fengi ekki að fara í atkvæðagreiðslu við þinglok.

„Þetta eru mér, og fleirum, mikil vonbrigði. Ekki síst þar sem þetta frumvarp felur ekki í sér neina kollvörpun. Einungis átti að móta skýrari ramma utan um netverslanirnar sem eru nú þegar starfræktar, með áherslu á að að jafnræðis sé gætt gagnvart innlendum framleiðendum.“

Í dag hafa sprottið fram netverslanir með áfengi líkt og Santewines og Nýja vínbúðin, en þar sem þær eru ólöglegar á Íslandi, eru þær skráðar erlendis.

Sama frumvarp og dagaði uppi síðast

Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla- iðnaðar og nýsköpunarráðherra, lagði fram sambærilegt frumvarp á síðasta kjörtímabili, sem var þó fast í ríkisstjórn í tæpt ár, að sögn Hildar. 

„Það er enginn eðlismunur á þessum frumvörpum, ég tók aðeins snúning á því og lagði fram sem þingmannamál, en áherslur stjórnarflokkanna eru ólíkar í þessum málum, eins og vitað er.“

Mæta nútímakröfum

Hildur kveðst hafa skilning fyrir því að umræða um aukið frelsi í tengslum við áfengi, hreyfi við tilfinningum hjá fólki og hún virðir þær skoðanir að nálgast þurfi slík mál af varfærni. 

„Með þetta tiltekna mál þá er í raun bara verið að mæta nútímakröfum í verslun sem er þegar til staðar.“

Það þurfi því að taka á þeirri stöðu sem er uppi í dag. „Frumvarpið mitt bíður þá bara spakt á kantinum, til þjónustu reiðubúið þegar til þess kemur sem verður vonandi sem fyrst.“

Hildur telur ólíklegt að hún eigi eftir að leggja málið fyrir á næsta þingi fyrst það tókst ekki að fá það í gegn nú með þessum hætti. Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins mun setjast niður og fara yfir það, í hvaða feril sé best að þetta mál fari næst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert