Strætó bs. hefur þegar afhent lögreglunni myndefni úr strætisvagninum sem maður varð fyrir á Sæbraut í dag.
Þetta segir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó, í samtali við mbl.is.
Hann segir skýra verkferla í gildi við atvik sem þetta, þar sem bílstjóri vagnsins hafi verið tekinn af vakt og annar tekinn við leiðinni.
Vagnstjóranum verður boðin áfallahjálp, ásamt einum farþega sem var um borð. „Það þarf að hlúa að bílstjóra, þeim sem var um borð og þeim sem urðu vitni að þessu. Þetta er auðvitað mikið áfall,“ segir Guðmundur Heiðar. Yfirmaður vagnstjóra var einnig sendur á slysstað.
Vitni að slysinu hafa lýst atvikinu þannig að slysið hafi borið brátt að og lítið svigrúm til viðbragðs af hálfu bílstjóra.