Neita sér jafnvel árum saman um lífsgæði

Fasteignaverð hefur hækkað verulega að undanförnu og virðist staðan sífellt …
Fasteignaverð hefur hækkað verulega að undanförnu og virðist staðan sífellt versna fyrir fyrstu kaupendur. Verðið er hátt og allt gerist hratt. mbl.is/Sigurður Bogi

Fjármálafræðingur sem hefur rannsakað stöðu ungs fólks á fasteignamarkaði segir algengt að ungt fólk þurfi að neita sér um ýmis lífsgæði, jafnvel árum saman, til þess að eiga möguleika á því að eiga fyrir útborgun í fasteign. Ljóst er að markaðurinn hefur breyst mikið til hins verra fyrir kaupendur á stuttum tíma.

„Ég hef haldið áfram að fylgjast með markaðnum og ég sé ekki að staðan hafi batnað,“ segir fjármálafræðingurinn Auður Elísabet Guðrúnardóttir.

Hún varði meistararitgerð sem fjallaði um það hvernig úrræði stjórnvalda hafi nýst ungu fólki við fyrstu fasteignakaup fyrr á þessu ári.

Auður Elísabet Guðrúnardóttir.
Auður Elísabet Guðrúnardóttir.

„Þetta er orðið alveg ofboðslega erfitt, þó að fólk sé að leggja fyrir 80.000 krónur á mánuði þá er það samt í um 10 ár að safna sér fyrir útborgun í tveggja herbergja íbúð sem kostar 50 milljónir í dag,“ segir Auður Elísabet.

„Staðan er orðin svo slæm að fólk gerir oft ekki kröfur um að ástandsskoða eignina vegna þess að þá fær það ekki kauptilboð samþykkt ef það eru einhverjir fyrirvarar umfram fjármögnun. Það kaupir kannski eign þar sem er verið að leyna einhverjum göllum en hefur ekki tækifæri til að skoða það nánar því þetta þarf allt að gerast svo hratt.“

Telur að hlutdeildarlán hafi verið sett fram of snemma

Auður Elísabet ákvað að rannsaka stöðuna m.a. þegar hún tók eftir því að fólk í kringum hana væri farið að neita sér um ýmislegt til þess að geta lagt sem allra mest fyrir.

„Þetta eiga að vera bestu ár lífs þíns. Þegar fólk byrjar að safna eru margir að neita sér um viðburði, utanlandsferðir, að fara út að borða eða annað því þeir vilja forðast leigumarkaðinn eða komast fyrr út úr foreldrahúsum,“ segir Auður Elísabet.

Hún tók viðtöl við nokkra einstaklinga sem höfðu keypt sér fasteignir á síðustu tveimur árum. Viðmælendurnir voru flestir ánægðir með úrræði stjórnvalda sem lýtur að nýtingu séreignarsparnaðar til greiðslu skattfrjálst inn á afborganir eða höfuðstól láns. Aftur á móti voru viðmælendur Auðar ekki jafn hrifnir af svokölluðum hlutdeildarlánum sem kynnt voru í heimsfaraldri kórónuveiru. Eru ástæðurnar t.a.m. þær að ströng skilyrði eru fyrir slíkum lánum, m.a. þak á verð fasteignar, þak á tekjur, skilyrði um ástand og aldur fasteigna og endurgreiðslufyrirkomulag lánanna.

„Það sem situr mest í mér eftir að hafa skrifað ritgerðina er að úrræði hlutdeildarlána kom fram of snemma. Skorturinn á íbúðum er enn þá svo mikill. Mér hefði fundist að það hefði þurft að bæta fyrir uppsafnaðan byggingaskort áður en þetta úrræði kom til af því að þetta eru allt góð og gild úrræði, bæði séreignarsparnaðurinn og hlutdeildarlánin, en það þurfa að vera eignir til staðar ef það á að gera fleirum kleift að kaupa fasteign,“ segir Auður Elísabet.

Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert