Segir dagdrykkju hafa stóraukist

„Við fáum fólk sem er að koma úr margra ára dagdrykkju inn á Vog og með alveg ótrúlega miklar líkamlegar afleiðingar af drykkjunni og náttúrulega allar hinar afleiðingarnar líka, fjölskyldulífið og atvinnumálin og allt það,“ segir Víðir Sigrúnarson, yfirlæknir á sjúkrahúsinu Vogi. 

Víðir segir dagdrykkju hafa aukist til muna á síðustu árum vegna þeirrar samfélagslegu viðurkenningar sem hefur átt sér stað gagnvart bjór og léttvíni.

Ófærir um að leggja mat á neysluna

„Eftir að bjórinn kom þá virkar það einhvern veginn saklausara að drekka einn bjór heldur en að drekka sterka vínið,“ bendir Víðir á og segir það þekkjast vel að skjólstæðingar hans á meðferðarstofnuninni Vogi séu ófærir um að leggja mat á magn þess áfengis sem þeir hefðu verið að neyta á hverjum degi áður en þeir misstu tökin á neyslunni.

„Þetta er eitt af því sem maður kallar svona „normalíseringu“ á neyslu. Og áfengi er auðvitað verst þar af því að við höfum verið að drekka áfengi í mörg þúsund ár og það er samþykktur vímugjafi í samfélaginu.“

Víðir Sigrúnarson ræddi við Berglindi Guðmundsdóttur í Dagmálum um áfengis- og vímuefnaneyslu Íslendinga nú á dögum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert