„Þetta er náttúrlega algjörlega ólíðandi“

Ólafur segir ekki hægt að koma í veg fyrir slys …
Ólafur segir ekki hægt að koma í veg fyrir slys á svæðinu. mbl.is/Kristinn Magnússon

Ólafur Steinar Björnsson, bóndi og einn landeiganda að Reynisfjöru, segir það alrangt að hann hafi verið á móti öryggisúrbótum á svæðinu til að reyna að sporna við slysum.

Hann hafi hins vegar gert athugasemdir við tillögur að um að setja upp ljósamastur með blikkljósum sem gefa viðvörunarmerki þegar brimið er sem mest, þar sem um falskt öryggi sé að ræða. Ekki sé hægt að koma í veg fyrir slys á svæðinu.

Ólafur segir ráðherra varpa ábyrgðinni yfir á landeigendur og vísar til orða Lilju Alfreðsdóttur, viðskipta- og menningarmálaráðherra, í Morgunblaðinu í dag. Þar segist hún vera tilbúin að nýta lagaheimildir sem eru til staðar til að loka hættulegum ferðamannastöðum eins og Reynisfjöru. Slys eigi sér ítrekað stað á svæðinu og landeigendum og þeim sem hafi not af svæðinu hafi ekki tekist að ná utan um málið.

„Þetta er í annað skiptið sem ráðherra ferðamála varpar ábyrgðinni yfir á okkur landeigendur bara til að skafa yfir sinn eigin skít. Þetta er náttúrlega algjörlega ólíðandi,“ segir Ólafur í samtali við mbl.is. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, fyrrverandi ferðamálaráðherra, hafi einnig varpað ábyrgðinni á landeigendur.

Sérfræðingar að sunnan fara í fýlu

Hann segir það alfarið rangt að hann hafi verið á móti úrbótum í Reynisfjöru.

„Það var haldinn þarna fundur fyrir nokkrum árum með Vegagerðinni, ríkislögreglustjóra og almannavörnum og Vegagerðin kom með þá hugmynd að setja upp þarna eitthvert ljósamastur. Við vorum ekkert mótfallin því, síður en svo, en við gerðum athugasemd við að þetta væri falskt öryggi,“ segir Ólafur.

„Það er eins og allir vita, ef þú talar utan í sérfræðing að sunnan, þá fara þeir í fýlu eða sjá að sér og gera ekki neitt,“ bætir hann við. Því hafi aldrei verið lokið við að útfæra framkvæmdina.

Ætlast til að veitingahúsaeigendur stýrðu ljósum

Skarphéðinn Berg Steinarsson ferðamálastjóri sagði í Morgunblaðinu í dag að fjármagn hafi verið tryggt fyrir tveimur árum vegna tillagna að öryggisúrbótum í Reynisfjöru. Hins vegar hefi ekki fengist samþykki allra landeigenda fyrir framkvæmdunum. Ólafur vísar þessu á bug.

„Athugasemdirnar sem við gerðum við þessa framkvæmd sem Vegagerðin ætlaði að framkvæma var sú að þarna átti að setja upp ljósamastur og vera með öldumælingar. Gott og vel. En það var ekki komið lengra en það hver átti að stýra þessari ljósadýrð þeirra, hvenær væri hætta og hvenær ekki.“

Ætlast hafi verið til þess að eigendur að veitingastaðnum Svörtu fjörunni eða Black Beach tækju að sér að hafa umsjón með ljósunum, en Ólafur er í eigendahópnum.

Það hafi hins vegar ekki komið til greina. „Ef eitthvað kæmi fyrir þá myndi það stimplast beint á veitingastaðinn en þetta er veitingastaðnum alveg óviðkomandi.“

„Mikill er máttur ráðherra“

Hvað varðar hugmyndir Lilju um að nýta hugsanlega lagaheimildir til að loka Reynisfjöru, segist Ólafur spenntur að sjá útfærslu á þeirri lokun. Hann sjái ekki fyrir sér hvernig það eigi að vera hægt að loka fjörunni. Það hafi verið reynt tímabundið en lögregla hafi ekki ráðið við aðstæður.

„Varðandi lokunina þá bíð ég bara spenntur að sjá hvernig hún ætlar að framkvæma þessa lokun. Ég segi bara, mikill er máttur ráðherra.“

Þá spyr hann hver eigi að ákveða hvenær er lokað og hvenær ekki. Það sé hægara sagt en gert að meta aðstæður á svæðinu og ljósin geti skapað falskt öryggi.

„Þetta er alltof mikið þannig að þessir ráðherrar vita ekkert hvernig aðstæður eru eða um hvað þeir eru að tala og það er bara skömm að því,“ segir Ólafur og vísar til þess að slys hafi orðið með ýmsum hætti í fjörunni og ekki alltaf vegna þess að aðstæður þar hafi verið sérstaklega hættulegar.

Segir ekki hægt að koma í veg fyrir slys

Ertu ósammála því að grípa þurfi til einhverra aðgerða?

„Málið er það að þetta er eins og annars staðar í Evrópu. Það er ekkert við þessu að gera. Það verður hver að bera ábyrgð á sjálfum sér.“

Ef það er hægt að koma í veg fyrir slys á þessu svæði er þá ekki eðlilegt að grípa til einhverra ráðstafana?

„Það er ekki hægt. Ekki að mínu mati. En að halda fram að við séum á móti einhverju, það er bara ekki rétt.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert