Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir ráðuneytið meðvitað um að úrræði vanti fyrir fólk sem þurfi á öðruvísi aðstoð að halda en hefðbundin fangelsi geta veitt. Það þurfi læknishjálp og hjálp sérfræðinga á öðrum sviðum. Unnið sé að því að koma með tillögur til úrbóta.
„Þetta er búið að vera allt of lengi vandamál hjá okkur sem þarf að leysa,“ segir hann.
Guðmundur Ingi Þóroddsson, formaður Afstöðu, félags fanga, sagði í samtali við mbl.is í fyrradag að úrræði skorti fyrir þá sem falla á milli þess að vera sakhæfir eða ósakhæfir eða þá sem reynast „of erfiðir“ fyrir réttargeðdeild. Menn fengju ekki þá aðstoð í fangelsum sem þeir þyrftu til betrunar.
Jón segir ráðuneytið hafa verið í samvinnu við Fangelsismálastofnun sem snýr einmitt að þessu vandamáli og því hvort mögulegt sé að bregðast við þessu og öðru sem snýr að fangelsismálum á sama tíma. Utanaðkomandi aðili hafi verið ráðinn til að vinna með stofnuninni við að skoða þessi mál. Síðan er stefnan að setja fram einhverjar leiðir sem mögulegt er að feta til þess að leysa málið.
Að sögn Jóns er um fjölbreyttan hóp að ræða. „Við erum auðvitað fámennt samfélag sem er að glíma við ósakhæfi og fólk sem þarf einhverja sérstaka meðferð í fangelsum. Við erum líka með fólk sem þarf öryggisvistun út frá ákveðnum sjónarmiðum. Ég hef skoðað það hvort við getum leyst aðstæður þessa fámenna hóps með einhverju sameiginlegu átaki sem getur náð utan um þessi vandamál sem við er að glíma.“
Nánar er fjallað um málið í Morgunblaðinu í dag.