Formaður Leiðsagnar, stéttarfélags leiðsögumanna, er harmi sleginn yfir dauðsfallinu í Reynisfjöru fyrir helgi. Hann segist vara ferðamenn þrívegis við hættunni í fjörunni áður en þeir yfirgefa rútuna til að skoða sig um og njóta náttúrufegurðarinnar.
„Ég held ég geti talað fyrir hönd allra leiðsögumanna þegar ég segi að maður er harmi sleginn þegar maður sér svona fréttir. Þetta er sorglegra en tárum taki. Fyrir fólkið sem þarna á í hlut og alla sem verða vitni að þessu þá er þetta alveg skelfilegt,“ segir formaðurinn Friðrik Rafnsson.
„Þetta er eitthvað sem allir leiðsögumenn kvíða fyrir og geta lent í þrátt fyrir að við gerum allt til að koma í veg fyrir það. Í hvert skipti sem svona gerist fer um mann hrollur og samúð með þeim sem lenda í þessu.“
Hann segir hlutverk leiðsögumanna vera þríþætt. Í fyrsta lagi að upplýsa fólk um söguna, í öðru lagi að sinna náttúruvernd og í þriðja lagi er það öryggisþátturinn. „Við upplýsum fólk um hættur og að fara varlega allsstaðar þar sem verið er að skoða náttúruna. Reynisfjaran er einn af þeim stöðum sem við vörum vel við,“ greinir Friðrik frá.
Sjálfur hefur hann þá reglu að vara ferðamenn þrívegis við í rútunni á leið í Reynisfjöru á um tíu mínútna kafla. Fyrst við afleggjarann, næst þegar leiðin þaðan er um hálfnuð og svo loks rétt áður en fólkið stígur út. „Ég útskýri að þótt veðrið sé þokkalegt geti aldan verið ansi mikil,“ segir hann. „Ég útskýri að þarna er aðdjúpt og geta komið mannskæðar holskeflur sem geta kostað mannslíf. Þumalputtareglan er að segja fólki að fara ekki nær sjávarborðinu en 20 metra og alls ekki taka selfíur þar,“ bætir Friðrik við. Einnig fylgir hann hópnum niður í fjöru og reynir að fylgjast með eins og hann getur. Það getur þó reynst erfitt þegar hann er með 40 til 60 manna hópa á sinni könnu.
Hann segir lítið annað hægt fyrir leiðsögumenn að gera en að vara fólk sterklega við aðstæðunum, sem virðast oft sakleysislegar við fyrstu sýn. Oft gleymir það sér í fegurðinni en þegar það kemur niður í fjöruna skilur það nær alltaf hvað hann var að tala um í rútunni.
Á 12 ára leiðsögumannaferli Friðriks segir hann það einu sinni hafa komið fyrir í sínum hóp að ferðamaður á hans vegum hafi blotnað í Reynisfjöru.
Eftir að hafa varað hann þrívegis við hættunni og Friðrik gengið svo á eftir hópnum kom maðurinn þrátt fyrir það rennblautur til baka. „Þetta var grátbroslegt. Það fyrsta sem hann gerði var að biðja mig afsökunar á að hafa ekki farið að fyrirmælunum. Ég sagði: „Þú ert blautur en lifandi. Annað skiptir ekki máli“,“ segir Friðrik, sem sá ekki umrætt atvik.
Því miður, bætir hann við, þarf hann oft að grípa inn í þegar hann er í Reynisfjöru til að koma í veg fyrir óhapp, til dæmis þegar fólk er jafnvel búið að stilla börnum sínum upp niðri í fjöruborðinu vegna myndatöku. Undirtektirnar sem hann fær eru misjafnar en þegar hann útskýrir málið áttar fólk sig iðulega betur á stöðunni.
Þrátt fyrir ráðleggingar leiðsögumanna og upplýsingaskilti í Reynisfjörðu virðist ákveðinn hluti ferðamanna virða slíkt að vettugi, stundum með hræðilegum afleiðingum eins og áður hefur komið fram. Friðrik nefnir möguleikann á að hafa rauða eða græna fána í fjörunni eftir því hvað hættan er mikil í hvert sinn eða jafnvel að setja upp mynd með krossum í aðvörunarskyni sem sýnir fjölda þeirra sem hafa farist í fjörunni.
Sjálfur kveðst hann hlynntur því að svæðinu verði lokað við tilteknar aðstæður, rétt eins og Lilja Alfreðsdóttir, viðskipta- og menningarmálaráðherra, hefur gefið í skyn að gæti gerst.
Einnig telur Friðrik að landvörður eða -verðir ættu að vera á staðnum yfir hásumarið. Mikilvægt sé að vernda orðspor Íslands sem eitt öruggasta land í heimi og fréttir af dauðsföllum í Reynisfjöru fljúgi hratt. „Ef við tökum ekki á því erum við ekki að standa okkur,“ segir hann.
Að mati Friðriks hafa stjórnvöld staðið sig prýðilega, ekki síst á meðan kórónuveiran gekk yfir, að bæta aðstöðu fyrir ferðamenn á fjölförnustu stöðunum. Aðspurður segir hann marga hættulega staði á landinu þar sem ferðamenn eru fjölmennir en Reynisfjara skeri sig úr sökum þess hve lúmsk hún er.