Landsréttur hefur snúið við sýknudómi Héraðsdóms Reykjaness og dæmt mann í þriggja ára fangelsi fyrir nauðgun. Brotaþoli og maðurinn voru í sambandi af kynferðislegum toga, en ekki var fallist á að um brot í nánu sambandi væri að ræða, þar sem þau hvorki bjuggu saman né voru í stöðugu sambandi.
Maðurinn var sakfelldur fyrir að hafa af ásetningi haft kynferðismök við brotaþola án samþykkis hennar.
Atvikið átti sér stað 17. apríl 2019. Segir í dóminum að ákærði hafi þvingað brotaþola til munnmaka og haft við hana samræði í tvígang með því að beita hana ofbeldi og ólögmætri nauðung, en hann hafi klipið hana, slegið hana ítrekað í andlit og líkama, bitið hana, rifið í hár hennar og tekið hana kverkataki, þannig að hún átti erfitt með andardrátt.
Ákærði hafði loks látið af háttsemi sinni eftir að brotaþoli hafi ítrekað beðið hann að hætta. Þá hafi ákærði með framangreindri atlögu ógnað lífi, heilsu og velferð brotaþola á alvarlegan og sérstaklega sársaukafullan og meiðandi hátt og hún hlotið roða, mar, bit og klórför, þar á meðal á baki, handleggjum, rassi, hálsi og andliti. Með hinum áfrýjaða dómi var ákærði sýknaður af sakargiftum.
Ákærði hefur haldið því fram að ekki hafi verið um neins konar þvingun af hans hálfu að ræða.
Hélt hann fram að brotaþoli hefði áður stundað með honum kynlíf af þessum toga og ekki á nokkurn hátt gefið það til kynna, hvorki í umrætt sinn né áður, að hún væri mótfallin því heldur þvert á móti sagt að hún væri fyrir „harkalegt kynlíf“.
Ekki var hins vegar fallist á að ákærði hafi haft réttmæta ástæðu til að ætla að brotaþoli væri samþykk þeim kynferðismökum sem ákært var fyrir.
Yrði þvert á móti talið að hann hafi í engu skeytt um raunverulegan vilja brotaþola til að stunda með honum kynferðismök og vera í þeim beitt því mikla ofbeldi sem hann viðhafði gagnvart henni. Hafi ákærði þannig augljóslega brotið gegn sjálfsákvörðunarrétti og kynfrelsi brotaþola.
Er ákærði því dæmdur í þriggja ára fangelsi og á að greiða allan sakarkostnað.